139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

nálgunarbann og brottvísun af heimili.

706. mál
[21:37]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að fara nánar í efnisatriði frumvarpsins hér á eftir og fara aðeins yfir forsöguna og sjónarmið mín í þessum efnum. Í þessu stutta andsvari ætla ég hins vegar aðeins að lýsa því yfir að við í allsherjarnefnd höfum unnið málið í góðri sátt. Það kom vel unnið frá innanríkisráðuneytinu til þingsins og við höfum farið yfir það sem og umsagnir. Málið er ekki umdeilt. Innan nefndarinnar tókst mjög góð sátt um afgreiðslu þess.

Ég vildi bara eins og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir segja að þau tengsl sem hv. þm. Róbert Marshall myndaði milli tveggja þingmála, annars vegar þessa sem hér er á borðinu og hins vegar frumvarps um breytingar á áfengislögum með tilliti til áfengisauglýsinga, eru að mínu mati mjög óljós og langsótt.

Eins og hv. þm. Róbert Marshall nefndi eru ótvírætt rík tengsl á milli heimilisofbeldis, sem þetta mál fjallar auðvitað að stórum hluta til um, og áfengis- og vímuefnaneyslu en ég held að beita þurfi ansi miklu hugmyndaflugi til að tengja það við þær útfærslur á áfengisauglýsingabanni sem felast í frumvarpinu sem hann vísaði til. Tengslin þar á milli eru mjög óljós enda hygg ég að menn hafi gerst sekir um heimilisofbeldi í stórum stíl löngu fyrir tíma áfengisauglýsinga. (Forseti hringir.)