139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

nálgunarbann og brottvísun af heimili.

706. mál
[21:39]
Horfa

Frsm. allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held því enda ekki fram að áfengisauglýsingar séu orsök heimilisofbeldis. Ég er einfaldlega að benda á heildarsamhengið og kostnaðinn sem samfélagið verður fyrir af völdum taumlausrar vímuefnaneyslu, hvort sem það er áfengi eða fíkniefni — sjálfur geri ég engan greinarmun þar á. Gríðarlegur kostnaður vegna löggæslu og heilsugæslu fellur til vegna þessa. Ég held að menn þurfi að gera sér grein fyrir því og horfa á málin í heildarsamhengi. Ég bendi einfaldlega á það.

Ég held því ekki fram að skýrara bann við áfengisauglýsingum sé einhver lausn á því og heimilisofbeldi á Íslandi muni þá ekki lengur verða til. Því fer víðs fjarri. En þetta er heildarsamhengi hlutanna og mér finnst að við í þessari stofnun eigum að tengja málin saman með þessum hætti. Ég geri það upp að vissu marki fyrir mitt leyti og vildi einfaldlega gera grein fyrir því í framsögu minni.. En það er auðvitað aukaatriði í því tiltekna máli sem við fjöllum um hér og ég veit að hv. þingmaður er eins og ég mjög ánægður með framgang þess.