139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

almenn hegningarlög.

785. mál
[22:19]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt eins og fram kom í máli hv. þm. Róberts Marshalls, formanns allsherjarnefndar, að um þetta mál var góð sátt í nefndinni. Auðvitað vöknuðu við umfjöllun um málið ákveðnar spurningar um hvaða tilgangi það þjónaði að hækka refsirammann í þessum tilvikum. Sú spurning hlýtur alltaf að vakna þegar refsingar eru þyngdar hvort slíkar breytingar nái tilgangi sínum. Í þessu tilviki er um það að ræða að með þeirri tiltölulega litlu breytingu sem felst í frumvarpinu eru möguleikar auknir á því í sambandi við gæsluvarðhaldsúrskurði gagnvart þeim sem rannsókn mála af þessu tagi beinist gegn. Það er út af fyrir sig jákvætt, það er samhengi milli annars vegar gæsluvarðhaldsreglnanna og hins vegar þeirra hámarksrefsinga sem settar eru í almennum hegningarlögum og það er í ljósi þeirra þátta sem ég taldi fyrst og fremst ástæðu til að styðja þetta mál. Hins vegar er alltaf álitamál hvaða hámarksrefsing á að vera við einstökum brotum. Það hefur kannski ekki farið fram á okkar vettvangi nein sérstök rannsókn á þessum árafjölda, 12 ár í þessu sambandi, eða samhengi við önnur brot eða þess háttar. En á það ber að líta að mál þetta er undirbúið og samið af hálfu refsiréttarnefndar þannig að færir sérfræðingar á þessu sviði hafa komið að undirbúningi málsins og við í nefndinni höfum ekki talið ástæðu til að efast (Forseti hringir.) um mat þeirra í þessum efnum.