139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

fjármálafyrirtæki.

783. mál
[22:37]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti sem ég hef því miður ekki við höndina en bið hv. þm. Róbert Marshall að útvega mér. Þetta er mál nr. 783, frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og hér er verið að breyta XII. kafla laganna sem fjallar um slit fjármálafyrirtækja. — Þá hef ég fengið nefndarálitið sem ég þakka fyrir. Það er á þskj. 1662 en breytingartillögur er að finna á sérstöku skjali sem þeirri sem hér stendur þætti vænt um að fá líka.

Frú forseti. Ég vil í stuttu máli rifja upp helstu efnisatriði þessa frumvarps en með því er brugðist við athugasemdum EFTA vegna innleiðingar tilskipunar 2001/24/EB, um endurskipulagningu og slit lánastofnana. Þá er Fjármálaeftirlitinu gert að hafa sérstakt eftirlit með slitum fjármálafyrirtækja sem stýrt er af slitastjórnum og skilanefndum, óháð því hvort viðkomandi fyrirtæki er með starfsleyfi, hefur takmarkað starfsleyfi eða starfsleyfið hefur verið afturkallað.

Í þriðja lagi eru Fjármálaeftirlitinu veittar heimildir til að bera fram kröfu í héraðsdómi um að mönnum sem eiga sæti í skilanefndum og slitastjórnum verði vikið frá og ríkari krafa er gerð til upplýsingagjafar slitastjórnar fjármálafyrirtækis sem verði þá gert skylt að boða til fundar með kröfuhöfum áður en mikils háttar ákvarðanir verða teknar varðandi sölu eða ráðstöfun réttinda eða eigna fyrirtækisins. Í frumvarpinu er einnig greitt fyrir því að slitum verði lokið með nauðasamningi.

Frú forseti. Í kjölfar hrunsins var XII. kafli laga um fjármálafyrirtæki nánast endurskrifaður og nýr leiddur í lög vorið 2009. Við erum enn að draga lærdóm af hruninu og feta okkur áfram við slit fjármálafyrirtækja sem eru miklum mun stærri og flóknari búskipti en í hefðbundnum búum með fjölda erlendra kröfuhafa, jafnvel svo skiptir hundruðum. Þetta frumvarp tekur auk þess sem ég nefndi áðan á athugasemdum frá Eftirlitsstofnun EFTA. Verið er að herða eftirlit Fjármálaeftirlitsins, veita ríkar heimildir og ótvíræðar til þess að Fjármálaeftirlitið geti haft eftirlit með fjármálafyrirtækjum í slitum, hvort heldur þeim er stýrt af bráðabirgðastjórnum, skilanefndum eða slitastjórnum. Og um það fjallar 3. gr. frumvarpsins.

Í 2. gr. frumvarpsins er kveðið á um að hæfisskilyrði 50. gr., og hluta af 52. gr., laga um fjármálafyrirtæki skuli gilda um slitastjórnir. Nefndin leggur til að ákvæðið nái einnig til bráðabirgðastjórna en það nær sjálfkrafa til skilanefnda samkvæmt breytingartillögu sem gerð er á bráðabirgðaákvæði V en það ákvæði í lögunum um fjármálafyrirtæki fjallar um skilanefndir.

Frú forseti. Þetta skiptir töluvert miklu en það sem mest hefur verið rætt á vettvangi nefndarinnar er 4. mgr. 52. gr. sem, verði þetta frumvarp að lögum, mun einnig taka til slitastjórna, bráðabirgðastjórna og skilanefnda. Þar segir að stjórnarmenn fjármálafyrirtækis og stjórnarmenn annars eftirlitsskylds aðila, í þessu tilfelli menn í slitastjórnum, bráðabirgðastjórnum og skilanefndum, megi hvorki eiga sæti í stjórn annars eftirlitsskylds aðila eða aðila sem er tengdur honum né vera starfsmenn, lögmenn eða endurskoðendur annars eftirlitsskylds aðila eða félaga í nánum tengslum. Starfsmönnum fjármálafyrirtækis er ekki heimilt að sitja í stjórn viðkomandi fjármálafyrirtækis.

Þetta er eitt af þeim ákvæðum, hæfisskilyrðum, sem verið er að leggja til að gildi um þá sem stjórna fjármálafyrirtækjum í slitum og bent var á það fyrir nefndinni að einnig yrði vísað til 5. mgr. 52. gr. en þar er gert ráð fyrir þeirri undantekningu að menn geti, hvort heldur þeir eru stjórnarmenn eða starfsmenn fjármálafyrirtækis, tekið sæti í stjórn annars eftirlitsskylds aðila ef um er að ræða félag sem er að hluta eða öllu leyti í eigu fjármálafyrirtækis eða félags sem að hluta eða að öllu leyti er með yfirráð í fjármálafyrirtækinu.

Nefndin tekur ekki undir þessar ábendingar með vísan til þess að skilanefndir og slitastjórnir hafa almennt meiri afskipti af daglegum rekstri fjármálafyrirtækja í slitum en stjórnarmenn í fjármálafyrirtækjum sem eru hvorki í fjárhagslegri endurskipulagningu né slitum.

Ég nefndi áðan, frú forseti, að III. kafli laganna fjallar um sérstakt eftirlit Fjármálaeftirlitsins en fjármálafyrirtæki sem er í slitum og hefur enn starfsleyfi hefur lotið skýru eftirliti Fjármálaeftirlitsins en það hefur hins vegar ekki átt við um þau fjármálafyrirtæki sem hafa takmarkað eða ekkert starfsleyfi. Það hlýtur að teljast æskilegt að sambærilegar reglur gildi um eftirlit með störfum slitastjórna fjármálafyrirtækja í endurskipulagningu og slitum, óháð því hvort þau hafi enn starfsleyfi, og hið sama á við um dótturfélög. Meðal ákvarðana sem Fjármálaeftirlitinu ber að athuga og fylgjast með, verði frumvarpið að lögum, eru ákvarðanir um innheimtu og umbreytingu lána í þeim tilvikum sem við á.

Markmiðið með þeim breytingum sem hér eru lagðar til er að viðskiptamenn fjármálafyrirtækja í slitum njóti ekki lakari stöðu við úrlausn skuldamála sinna en viðskiptamenn annarra fjármálafyrirtækja. Þannig er kveðið á um það í frumvarpinu að framganga fjármálafyrirtækis í endurskipulagningu eða slitum skuli vera í samræmi við það sem tíðkast almennt hjá fjármálafyrirtækjum með gilt starfsleyfi.

Þá er einnig mælt fyrir um að viðskipti fjármálafyrirtækis í endurskipulagningu eða slitum, við aðila í slitastjórn eða aðila í nánum tengslum við slíkan aðila, skuli fara að reglum um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur, og er þar vísað til 19. gr. laga um fjármálafyrirtæki, og að Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit með því að svo sé.

Frú forseti. Eins og ég nefndi er gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að eftirlit með fjármálafyrirtækjum í endurskipulagningu og slitum nái einnig til dótturfélaga. Við umfjöllun um málið í nefndinni var bent á að þetta þýddi í reynd að Fjármálaeftirlitinu bæri að hafa eftirlit með öllum dótturfélögum fjármálafyrirtækja í endurskipulagningu eða slitum án tillits til þess hvort dótturfélög teldust til eftirlitsskylds aðila eða ekki. Fram kom að um hundruð félaga gæti verið að ræða. Meiri hlutinn telur ekki nauðsyn á svo víðtæku eftirliti og leggur til að eftirlit Fjármálaeftirlitsins nái aðeins til þeirra dótturfélaga sem halda utan um eignir fjármálafyrirtækisins.

Í 4. mgr. 3. gr. er mælt fyrir um að Fjármálaeftirlitið geti vikið manni úr slitastjórn frá störfum tímabundið þar til héraðsdómur hefur kveðið upp úrskurð, og enn fremur að Fjármálaeftirlitið geti beint kröfu til héraðsdóms um að ábyrgð á rekstri fjármálafyrirtækis í slitum eða fjárhagslegri endurskipulagningu verði flutt til slitastjórnar annars fjármálafyrirtækis. Meiri hlutinn telur varhugavert að Fjármálaeftirlitið fái vald til að víkja manni úr slitastjórn sem hefur verið skipaður af dómi þótt tímabundið sé og leggur því til að 4. málsliður 3. gr. falli brott. Þá telur meiri hlutinn óheppilegt að slitastjórn tiltekins fjármálafyrirtækis í slitum eða fjárhagslegri endurskipulagningu taki yfir verkefni annars slíks fjármálafyrirtækis.

Meiri hlutinn leggur hins vegar til þá breytingu á 4. mgr. að Fjármálaeftirlitinu verði heimilt að beina kröfu til héraðsdóms um að slitastjórn verði vikið frá að hluta eða í heild og bætt verði við málslið til að hnykkja á því að héraðsdómur skuli taka kröfu Fjármálaeftirlitsins til úrskurðar þegar í stað með tilvísun til 2. mgr. 76. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Þá getur kröfuhafi einnig borið upp aðfinnslur við störf skiptastjóra við héraðsdómara, og um slíka kröfu fer eftir atvikum eftir 169. gr. þeirra laga.

Frú forseti. Í 5. gr. laganna er lagt til að gerð verði ríkari krafa til upplýsingagjafar slitastjórnar fjármálafyrirtækis eins og ég nefndi áðan og er það eitt af nýmælum í frumvarpinu. Með ákvæðinu er í reynd ætlunin að festa upplýsingagjöf til kröfuhafa í sessi, en fyrir nefndinni kom fram að óformlegir kröfuhafafundir hafi verið haldnir í þrotabúum eða í gömlu bönkunum alveg frá því að skilanefndir tóku við þeim fljótlega eftir hrunið. Það er sem sagt ætlunin að festa þessa upplýsingagjöf í sessi en við umfjöllun um málið í nefndinni var bent á að misræmi er milli frumvarpstextans annars vegar og athugasemdar við greinina. Í athugasemdum kemur nefnilega fram að markmið með kynningu sé að upplýsa kröfuhafa um væntanlegar ráðstafanir, en í þeim orðum virðist felast að kynna skuli kröfuhöfum fyrir fram um umtalsverðar ráðstafanir. Svo er þó ekki enda er ekki kveðið á um það í sjálfu ákvæði frumvarpsins. Almennt er gert ráð fyrir því að slitastjórnir meti sjálfar með hvaða hætti og á hvaða tímapunkti slík upplýsingagjöf fer fram. Þó þykir rétt að ætlast til þess að slitastjórnir kynni kröfuhöfum væntanlegar ráðstafanir í þeim tilvikum þegar slík upplýsingagjöf gæti mögulega leitt til þess að hagstæðari niðurstaða fáist, til dæmis í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að eignir verði seldar á of lágu verði þar sem lánafyrirgreiðsla er ekki fyrir hendi. Voru um þetta nefnd dæmi frá því í árdaga slitanna þegar eiginlegir kröfuhafar voru ekki komnir fram en skilanefndir stóðu frammi fyrir því að selja eignir búanna. Þetta gæti líka átt við, frú forseti, ef um er að ræða mikilvægar óafturkallanlegar ráðstafanir með eignir búsins. Meiri hlutinn leggur til að hnykkt verði á því að ákvæðið nái einnig til skilanefnda.

Lagðar eru til breytingar í 6. gr. á ákvæðum um nauðasamninga í þeim tilgangi að greiða fyrir því að unnt verði að ljúka slitum með nauðasamningi, eins og ég nefndi áður. Þar er meðal annars lagt til að reglum um nauðasamninga við lok slita verði breytt í þá veru að frestur sem áskilinn er frá fundi um atkvæðagreiðslu um frumvarp að nauðasamningi fram til framhaldsfundar um nauðasamninginn verði lengdur úr tveimur vikum í átta. Þar að auki, frú forseti, er lagt til að reglum um atkvæðagreiðslu um nauðasamning fjármálafyrirtækis verði breytt á þá lund að samþykki atkvæðismanna, sem talið er eftir höfðatölu, miðist við þá sem taka þátt í atkvæðagreiðslunni en ekki þá sem hafa lýst kröfu við slitin. Í því sambandi er áskilinn aukinn meiri hluti, þ.e. samþykki 70% þeirra sem taka þátt í atkvæðagreiðslu talið eftir höfðatölu. Þessi breyting felur í sér efnisbreytingu frá gildandi reglum, en í lögum um gjaldþrotaskipti er mælt fyrir um að 60% allra kröfuhafa talið eftir höfðatölu þurfi að samþykkja frumvarp að nauðasamningi. Nýmælið, eins og ég nefndi, er hins vegar að tiltekið hlutfall kröfuhafa sem greiða atkvæði í reynd við nauðasamningsumleitanir þurfi líka til svo að frumvarp teljist samþykkt. Í ljósi þess að um talsverða efnisbreytingu er að ræða þykir rétt að miða við 70% hlutfall. Meiri hlutinn áréttar mikilvægi þess að slitastjórnir kynni reglur um atkvæðagreiðslu um nauðasamning fyrir kröfuhöfum þannig að þeir séu vel upplýstir um þær reglur sem gilda um atkvæðagreiðslur um nauðasamninga fjármálafyrirtækja og afleiðingar þess að þeir mæti ekki til að greiða atkvæði á fundi þar sem frumvarp að nauðasamningi verður kynnt.

Slitum fjármálafyrirtækis lýkur annaðhvort með nauðasamningi eða gjaldþrotaskiptum. Það er ákvörðun slitastjórnar og á ábyrgð hennar að meta hvenær tímabært er að leita eftir nauðasamningi. Sé leitað eftir nauðasamningi er farið eftir reglum laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Þannig er í 3. mgr. 103. gr. a laga um fjármálafyrirtæki vísað til 2. mgr. 149. gr. og 151.–153. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Það að nauðasamningur sé staðfestur er háð því skilyrði að kröfur samkvæmt 109.–112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. hafi fengist greiddar, trygging sett fyrir greiðslu þeirra eða skriflegt samþykki liggi fyrir um að nauðasamningur verði staðfestur án þess. Meiri hlutinn leggur til að 6. mgr. 102. gr. laganna verði breytt í þá veru að heimild til að greiða út kröfur við slit fjármálafyrirtækja takmarkist við kröfur samkvæmt þeim ákvæðum sem ég nefndi áðan, 109.–112., enda er reglunni einkum ætlað að einfalda störf slitastjórnar svo unnt verði að gera nauðasamning eða eftir atvikum leita eftir gjaldþrotaskiptum.

Frú forseti. Þessu er rétt að ljúka. Lögð er til breyting á ákvæði til bráðabirgða V í lögunum en meiri hlutinn leggur til breytingu á a-lið 7. gr. frumvarpsins í þá veru að ekki verði skipaðir nýir fulltrúar í skilanefndir eftir gildistöku laganna verði það að lögum. Þá er lagt til að 3. töluliður ákvæðis til bráðabirgða V um verkefni skilanefnda falli úr gildi 1. janúar 2012 og eftir það muni verkefni skilanefnda falla til slitastjórna. Enn fremur að þegar slitastjórn hefur tekið við verkefnum skilanefndar geti héraðsdómari skipað fleiri menn í slitastjórn en þeir megi þó ekki vera fleiri en fimm, samanber 4. mgr. 101. gr. laganna.

Frú forseti. Ég vil í lokin vekja athygli á nýmælum í frumvarpinu í 4. gr. þar sem fjallað er um að fjármálafyrirtæki geti stofnað innlánsreikning í eigin nafni þar sem hægt verði að leggja inn hlutagreiðslur vegna umþrættra krafna, og kveðið er á um að kröfuhafa skuli tilkynnt um hlutagreiðslu sem fer fram með þeim hætti.

Ég hef áður nefnt að með frumvarpinu sé ætlunin að bregðast við athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA vegna innleiðingar tilskipunar sem ég nefndi áðan og eru því í 1. gr. frumvarpsins lagðar til breytingar á 99. gr. laganna í því skyni. Meiri hlutinn tekur fram varðandi b-lið 1. gr. frumvarpsins, þar sem lögð er til viðbót við n-lið, þess efnis að löggerning megi aðeins ógilda ef sá sem hefur hag af því að hann haldi gildi sínu leggi fram sönnun um að um löggerninginn eigi að gilda lög annars ríkis og að í því ríki sé ekki að finna ógildingarreglu sem nái utan um viðkomandi tilvik, meiri hlutinn tekur fram að hér sé ekki átt við ógildingarreglur samkvæmt XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Um riftun við slit fjármálafyrirtækja gilda sem fyrr riftunarreglur þess kafla, samanber einnig 4. mgr. 103. gr. laga um fjármálafyrirtæki.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem er að finna á þskj. 1663.

Hv. þingmenn Eygló Harðardóttir og Sigurður Kári Kristjánsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið skrifa, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Kristján L. Möller, Valgerður Bjarnadóttir, Auður Lilja Erlingsdóttir og Skúli Helgason.