139. löggjafarþing — 148. fundur,  10. júní 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

824. mál
[12:21]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Margt í ræðu hv. þingmanns var byggt á misskilningi. Margræði er það en ekki flokksræði þegar breytingar eru gerðar á málum í samkomulagi margra þar sem tekið er tillit til sjónarmiða margra. Í þessu máli er auðvitað svo að fjölmargar af þeim breytingum sem er verið að gera á frumvarpinu eru gerðar að frumkvæði nefndarinnar. Aðrar eru gerðar að frumkvæði umsagnaraðila. Enn aðrar eru gerðar að frumkvæði ráðuneytis, sumar að kröfu stjórnarandstöðunnar og það er alls ekki dæmi um flokksræði, þvert á móti samræðu og lýðræði.

Ástæðan fyrir því að breytingartillaga hv. þingmanns, sem honum er greinilega svo sárt um, verður ekki afgreidd með þeim hætti sem hann óskaði, er að sjónarmiðin að baki henni og markmiðið með henni er allt annað en með þeirri breytingu sem við hyggjumst gera á málinu milli 2. og 3. umr. Hv. þingmaður er andvígur því að lífeyrissjóðirnir taki með skattgreiðslum þátt í aðgerðum fyrir skuldug heimili í landinu. Það erum við í meiri hlutanum ekki.

Við teljum hins vegar farsælt að fresta því að ráðast í þá tekjuöflun fyrir ríkissjóð og freista þess, svo að það sé einmitt ekki flokksræði heldur samræða og lýðræði sem ráði för í samfélaginu, að ná samkomulagi við lífeyrissjóðina um með hvaða hætti þeir skulu gjalda þá 1.500 milljarða sem enginn deilir um að þeir eigi að greiða í þessu. Náist það samkomulag ekki munum við lögfesta þann skatt á septemberþingi.