139. löggjafarþing — 148. fundur,  10. júní 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

824. mál
[14:03]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Áætlanir um fjölgun öryrkja hafa ekki gengið eftir, sem betur fer, vegna þess að starfsendurhæfingin er byrjuð og vegna þess að hliðverðirnir hjá almannatryggingum fóru að taka hlutverk sitt alvarlegar, þeir læknar sem úrskurða örorku. Það er bara þannig. Í góðærinu er kannski léttara að úrskurða örorku en þegar illa stendur og menn þurfa að skera niður alls staðar. Ég held að sú starfsendurhæfing sem er byrjuð hafi skilað árangri og ég vil að sjálfsögðu styrkja það. En eins og ég benti á er sérhver skattlagning á lífeyrissjóðina í heild sinni bara skattlagning á almenningssjóðina vegna þess að ríkið borgar hitt kerfið, þ.e. sama fólkið á að borga það tvisvar.

Ég þarf að hugsa mig mjög vel um áður en ég fellst á þær tillögur frá Samtökum atvinnulífsins og ASÍ að láta lífeyrissjóðina borga starfsendurhæfinguna með þessum hætti. Það væri miklu betra að láta alla atvinnurekendur, ríkið og aðra í almennu sjóðunum borga þetta hlutfall af launum inn í Starfsendurhæfingarsjóðinn, en ég mundi miklu frekar vilja sjá nýjar og skarpari reglur um starfsendurhæfingu. Allan lagaramma vantar um þessa starfsemi, nákvæmlega eins og það vantar allan lagaramma um sjúkrasjóðina sem eru búnir að starfa í fjölda ára án nokkurs lagaramma. Ég vildi sjá lagaramma um starfsendurhæfinguna og ég vildi að menn skoðuðu það að endurgreiða þann lífeyri sem sparast og endurgreiða þá skatta sem ríkið fær af þeim sem endurhæfast sem ég tel miklu snjallari lausn en að skattleggja allt heila kerfið sem fer inn í eitthvað óljóst.