139. löggjafarþing — 148. fundur,  10. júní 2011.

veiting ríkisborgararéttar.

882. mál
[14:33]
Horfa

Frsm. allshn. (Róbert Marshall) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um veitingu ríkisborgararéttar 50 einstaklinga sem sóttu um undanþágu til allsherjarnefndar samkvæmt þar til bærum lögum. Ég vil mælast til þess að þetta frumvarp verði samþykkt. Það er hefðinni samkvæmt útbúið aðeins í tveimur greinum. Í 1. gr. eru taldir upp þeir einstaklingar sem veittur er ríkisborgararéttur, fæðingarár þeirra og upprunastaður, og 2. gr. kveður á um það að lögin öðlist þegar gildi.

Nú þegar liggur fyrir í hv. allsherjarnefnd frumvarp frá einum hv. þingmanni, Vigdísi Hauksdóttur, um afnám réttar allsherjarnefndar í þessum efnum. Ég vil geta þess að einnig liggur fyrir frumvarp frá innanríkisráðuneyti til lagabreytingar um biðtíma vegna refsinga sem kemur til með að fækka til mikilla muna þeim einstaklingum sem sækja um ríkisborgararétt til allsherjarnefndar.

Þá spratt líka töluverð umræða af því í vor þegar 10 eða 12 erlendir ríkisborgarar, sem ekki hafa búsetu hér á landi, sóttu um ríkisborgararétt á Íslandi í því skyni að gerast hér frumkvöðlar og fjárfestar en þá einstaklinga er ekki að finna í þessum tillögum. Það bíður frekari umræðu í nefndinni. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að það megi ræða enn frekar hvort til sé einhvers konar lagaákvæði sem felur í sér að þeir sem vilja hasla sér völl í atvinnulífi á Íslandi geti sótt um einhvers konar búsetu eða tímabundið atvinnuleyfi sem gerir þeim kleift að taka þátt í atvinnulífinu. Enn sem komið er má segja, virðulegi forseti, að auðveldara sé úlfalda að fara í gegnum nálarauga en fyrir auðmenn að gerast íslenskir ríkisborgarar. Sú umræða bíður betri tíma og verður tekin til sérstakrar umfjöllunar í hv. allsherjarnefnd í haust. En hér er frumvarp um 50 einstaklinga sem allsherjarnefnd leggur til að verði veittur íslenskur ríkisborgararéttur.