139. löggjafarþing — 148. fundur,  10. júní 2011.

veiting ríkisborgararéttar.

882. mál
[14:40]
Horfa

Frsm. allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er almennt þeirrar skoðunar að þeir sem sækja um íslenskan ríkisborgararétt á Íslandi og vilja gerast ríkisborgarar í okkar landi, sem er vissulega fallegt en það er líka harðbýlt og erfitt, hér eru langir vetur og dimmir, séu Íslendingar í hjarta sínu hvort sem þeir eru ríkir eða fátækir. Ég er einfaldlega þeirrar skoðunar. Ég hef ekki séð þá holskeflu sem hv. þingmaður virðist ímynda sér að gæti beðið okkar ef opnað væri fyrir slíkt. Þetta er sú grundvallarafstaða sem ég hef í þessum málum og þá er ég ekki að lýsa skoðunum allrar allsherjarnefndar á þessu og því síður þingsins en þetta er sú forsenda sem ég nálgast málið á. Í nefndarstörfum allsherjarnefndar komast menn að sameiginlegri niðurstöðu í þessum efnum og taka afstöðu til þeirra einstaklinga sem sækja um og hér liggur sú niðurstaða fyrir.

Ég vek líka athygli hv. þm. Péturs Blöndals, sem fer í andsvar við mig um þessi mál, á því að það kom nýverið fram að þeir útlendingar sem eru hér á landi og starfa hér leggja meira til samfélagsins en þeir þiggja frá því.