139. löggjafarþing — 150. fundur,  10. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:58]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég hef heyrt af þessum ágreiningi innan LÍÚ. Ég gæti trúað því að hann væri meira að segja örlítið meiri en bítingurinn um málið á milli kjördæma á hinu háa Alþingi.

En á ég að trúa því sem fram kom í máli hv. formanns sjávarútvegsnefndar, að stjórnarmeirihlutinn sé að veita ráðherra heimild úti í bæ til þess að gefa LÍÚ frelsi til að ráðstafa takmörkuðum gæðum? Ja, það er þá eitthvað nýtt (Gripið fram í.) á ferðinni í þeim efnum. Ég vildi gjarnan fá þá hreint svar við því frá hv. formanni, þó svo að hún hafi ekki mikinn stuðning í nefnd sinni, hvort það sé virkilega ætlunin með þessu ákvæði að veita ráðherra heimild til þess að gefa LÍÚ frelsi til að ákveða ákveðna framkvæmdaþætti til að tryggja einhvern framgang í því frumvarpi sem ætlast er til að Alþingi samþykki. Er það virkilega svo að ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar fari fram á það og veiti LÍÚ fulla heimild til að ráðskast með fiskveiðiheimildina með þessum hætti?