139. löggjafarþing — 150. fundur,  10. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:45]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta sjútv.- og landbn. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi 2. gr. og afstöðu okkar framsóknarmanna til hennar þá er það rétt hjá hv. þm. Helga Hjörvar að hugmyndafræðilega séð rímar sú útfærsla sem hún endaði í í dag, þ.e. að taka þetta í smáum skrefum, skipta jöfnuninni á næstu þrjú ár, betur við hugmyndir okkar sem við samþykktum á flokksþingi og birtast m.a. í greinargerð í þingsályktunartillögunni. Við töldum að sanngjarnt væri að allir legðu eitthvað til þessara potta en það yrði hins vegar að gera þannig að greinin sjálf gæti aðlagað sig að því á ákveðnu tímabili svo menn stigju ekki of stór skref í einu. Að því leyti geta menn betur hugsað sér að horfa til greinarinnar.

Hvernig einstakir þingmenn Framsóknarflokksins munu greiða atkvæði á morgun mun væntanlega koma í ljós. Ég býst við að skoðanir séu samt nokkuð skiptar. Þær eru það auðvitað m.a. vegna þess, þó ég hafi vissulega talað jákvætt um hugmyndafræðilega grunn ákvæðisins, að tíminn og undirbúningurinn og þær reiknireglur sem menn hafa verið að skoða hefur verið þannig að enginn veit almennilega hvað þetta þýðir.

Hv. þingmaður er meðlimur í hv. landbúnaðar- og sjávarútvegsnefnd. Við fengum gesti í dag sem voru vissulega sammála í prinsippinu um að þetta ætti að gerast með einum eða öðrum hætti en allir voru hræddir um hvernig þetta kæmi út vegna þess að við höfum ekki skoðað þetta nægilega vel. Þetta er vanbúið. Við hefðum þurft að fá þetta inn miklu fyrr, með miklu meiri reiknireglum, skoðunum og úttektum til að við vissum hvað við værum að fara að gera. Á grunni þess gæti ég trúað að margir væru nokkuð smeykir við að styðja þessa grein.