139. löggjafarþing — 151. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[10:48]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður talaði hér um þá byggðaröskun sem hlotist hefur af því að fara inn í kvótakerfið. Það var skýrt markmið þáverandi stjórnarflokka sem komu kvótakerfinu á og þeirra flokka sem settu framsalið á 1990, sem hv. þingmaður er meðal annars meðlimur í, að það skyldi fara fram mikil hagræðing í greininni. Meðal annars ræddu virðulegir hæstv. ráðherrar sem sitja nú í ríkisstjórn mikilvægi þess að það ætti sér stað samþjöppun í greininni, það yrði að minnka fiskiskipastólinn og það yrði að draga úr kostnaði við sókn á hverja einingu. Það væri grundvallaratriði til að þjóðin gæti farið að hafa meira út úr þessari auðlind.

Ég spyr hv. þingmann hvort hún sé ósammála því að þessi hagræðing hafi leitt til góðs fyrir atvinnugreinina og fyrir land og þjóð og hvort það geti verið að stjórnvöld hafi brugðist í því að byggja upp annað atvinnulíf samhliða þessum markmiðum sínum sem sé þá ástæðan fyrir þeirri byggðaröskun sem við höfum séð, (Forseti hringir.) að ekki var gætt að því að auka fjölbreytni í atvinnulífinu úti um land (Forseti hringir.) þegar þessi markmið voru sett.