139. löggjafarþing — 151. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[12:14]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Við ræðum hér hið svokallaða minna frumvarp um stjórn fiskveiða. Menn hefur greint talsvert á um það, enda ber að líta á mörg sjónarmið og til margra hagsmuna, sem eru ólíkir eins og nærri má geta. Við tökumst enda á um hagsmuni einnar helstu og elstu atvinnugreinar landsmanna sem setur rækilegt mark sitt á atvinnulíf hringinn í kringum landið.

Ég hef verið talsmaður þess að breyta meginleiðum í þessu kerfi sem varðar að miklu leyti meginfrumvarp fiskveiðistjórnarbreytinganna. Þegar kemur að hinni svokölluðu samfélagslegu hlutdeild í þessu máli, pottunum sem notaðir eru til félagslegra úrræða við fiskveiðar hringinn í kringum landið, þá hef ég gert ýmsar athugasemdir við þann lið breytinganna. Ég tel að fullhratt sé farið í pottavæðinguna einfaldlega sakir þess að efnahagsleg og hagræn úttekt á þeirri leið liggur ekki fyrir og þar af leiðandi tel ég það á vissan hátt óábyrgt að taka ákvörðun um það efni áður en áhrifin á helstu sjávarbyggðir landsins liggja fyrir. Ég tel rétt að spyrja fyrst og skjóta svo, ef svo má að orði komast.

Ég tel reyndar að það sé ágæt reynsla af rómantískum veiðum víða um land. Ég þekki dæmi þess að víða á landinu hafa strandveiðar tekist með ágætum og fráleitt er ég á móti þeim í grundvallaratriðum. Ég tel hins vegar að við eigum að fara okkur hægt í aukningu strandveiða, hægt og ef til vill örugglega, vegna þess að fyrst og síðast þurfum við að hugsa um arðsemi greinarinnar sem fullburða atvinnugreinar á viðskiptalegum forsendum.

Strandveiðarnar hafa komið sér mjög vel fyrir fjölda byggða hringinn í kringum landið. Ég get nefnt Breiðdalsvík sem dæmi. Þar voru tekjur af höfninni óverulegar, mældust nánast í tugum þúsunda fyrir nokkrum árum en eru nú farnar að mælast í milljónum. Afli á land nam einhverjum tugum tonna fyrir nokkrum árum en er nú farinn að mælast í hundruðum tonna. Þetta eru ekki stóru stærðirnar í þessari mikilvægu atvinnugrein á Íslandi, en engu að síður er að kvikna líf í höfnum landsins sem hafa verið svo að segja dauðar um langt árabil. Það er einhver versta afleiðing af núverandi kvótakerfi sem menn þekkja, nefnilega það að útgerðarmenn hafa sjálfdæmi um það hvort og hvenær þeir yfirgefa heimabyggð sína og skilja íbúa landsins, íbúa byggðanna, eftir án lífsviðurværis. Þetta er einhver skelfilegasta birtingarmynd núverandi kerfis sem menn þekkja. Fyrir vikið hefur fjöldi hafna hringinn í kringum landið verið líflaus og þess vegna er ég talsmaður þess að við fikrum okkur áfram í strandveiðum. Menn getur hins vegar greint á um það hversu langt við eigum að seilast inn í þetta kerfi sem lýtur að félagslegum úrræðum og þeirri hlutdeild er varðar samfélagslegar leiðir í þessari grein.

Ég hef verið talsmaður þess að við færum okkur hægt í þá átt en förum ekki í stórum stökkum inn í þessi félagslegu úrræði, að minnsta kosti ekki fyrr en fyrir liggur hvaða hagrænu og efnahagslegu áhrif það hefur á fyrirtæki sem skila mesta arðinum í þessari atvinnugrein. Ég er fyrst og fremst talsmaður þess að þessi grein, rétt eins og farið er með aðrar auðlindir landsins, skili mesta arðinum til þjóðarbúsins. Þar af leiðandi þurfum við fyrst og fremst að reka greinina á viðskiptalegum forsendum, hagrænum forsendum, þannig að hún skili miklum og góðum fjármunum aftur til þjóðarbúsins. Á þeim forsendum getum við farið í byggðalegar aðgerðir, aukið atvinnustig o.s.frv.

Frú forseti. Ég hef jafnframt goldið varhuga við því að við séum að breyta kerfinu þeim sem farið hafa út úr kerfinu til góða, en þeim sem hafa verið að þreyja þorrann innan greinarinnar til tjóns. Ég tel það á margan hátt varhugavert að farið sé fram með óskilyrtum hætti inn í hina svokölluðu strandveiðipotta, að þeir sem hafa selt sig einu sinni, tvisvar, þrisvar, jafnvel fjórum sinnum, út úr greininni hafi óhindraðan aðgang að þessum pottum. Ég tel það ósanngjarnt. Ég tel að til greina komi að aðgangur manna að þessum strandveiðipottum sé á einhvern hátt skilyrtur og tel það vera sanngjarnt. Af hverju eru menn á annað borð að selja sig út úr greininni? Er það til þess að fara aftur inn í hana? Ég tel ósanngjarnt að menn sem eru að fénýta þessa þjóðarauðlind aftur og aftur séu þeir sem eru helst verðlaunaðir þegar kemur að breytingum á kerfinu. Minna frumvarpið gerir það að mörgu leyti. Þó að ég sé í sjálfu sér ekki andvígur því í heild sinni þá eru þarna óskilyrtar leiðir fyrir þá sem hafa selt sig mörgum sinnum út úr greininni til að komast aftur inn í hana og ef til vill fénýta hana að nýju á næstu árum.

Nýliðun í greininni má ekki vera þannig að þeir einir komist inn í hana og hafi til þess burði í tækjum og tólum sem hafa skilið við hana í talsverðum gróða. Það er þetta sem þjóðinni hefur sviðið á undanliðnum árum, annars vegar það að fyrirtæki hafa getað selt sig frá byggðarlögunum fyrirvaralaust og hins vegar að menn geti fénýtt hana á þann veg sem ég nefndi.

Mér finnst það því vel þess virði að sú leið verði skoðuð að aðkoma þeirra manna sem hafa selt sig út úr greininni margsinnis sé skilyrt og að menn fari ef til vill alla leið og hún verði bönnuð. Þó að það kunni að hamla atvinnufrelsi manna að einhverju leyti tel ég það vel þess virði að skoða ýmsar leiðir í þeim þætti málsins. Það verður að minnsta kosti með einhverju móti að taka á þessum hlutum sem svíður undan.

Ég hef jafnframt goldið varhuga við 2. gr. minna frumvarpsins sem lýtur að því hvernig við færum afla í hina samfélagslegu hlutdeild. Þar er kveðið á um að bolfiskurinn og uppsjávarfiskurinn skili sínu inn í þessa hlutdeild sem í grundvallaratriðum er eðlilegt og réttmætt; að það sé tekið af báðum þeim flokkum aflabragða við Ísland. Ég geri í sjálfu sér enga athugasemd við það. En reiknisstuðullinn er hins vegar rangur, reiknistuðullinn hvað það varðar er ósanngjarn og bitnar mjög misjafnlega á fyrirtækjum hringinn í kringum landið og felur einfaldlega í sér tilfærslur á milli byggðarlaga og aftengir þar af leiðandi þrjár meginforsendur breytinganna, sem er að efla byggð, efla atvinnu og tryggja rekstrargrundvöll greinarinnar. Sú leið sem farin er við að úthluta úr þessum tveimur flokkum, uppsjávaraflanum og bolfiskaflanum, aftengir þessar meginforsendur breytinganna sem eru innbyggðar í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar. Það er í sjálfu sér mjög alvarlegt.

Ég held því að menn verði að setjast niður og breyta þessum reiknisstuðli þannig að menn fari inn í pottana með jöfnum hætti, stuðlarnir verði leiðréttir, þannig að jafnt sé tekið af mönnum þegar kemur að fjárútlátum. Það er jú sitthvað pund og peningar í þessu efni og ber að horfa mjög rækilega til þessara þátta.

Ég vil, frú forseti, almennt segja um þessar breytingar að þær eru fyrst og fremst gerðar til að leiðrétta nokkrar meginmeinsemdir kerfisins sem ég hef rakið hér. Þær mega ekki verða til þess að verðlauna skussana í greininni og verða hinum sem hafa þurft að þreyja þorrann, og að mörgu leyti staðið sig vel innan laga og reglna greinarinnar, til tjóns. Þær mega ekki verða til þess að minnka vinnu, fækka í byggðum og skapa ótraustan rekstrargrundvöll. Þar af leiðandi vil ég taka á þessum þáttum í breytingunum og hlúa að meginforsendunum sem eru þær að efla byggð, efla atvinnu og tryggja rekstrargrundvöll. Það eru þessi atriði sem ég geri stóra fyrirvara við og mun, ef það breytist ekki á síðustu metrunum, greiða atkvæði gegn því að farið verði í 2. gr. frumvarpsins á þann hátt sem virðist vera uppi á borðum af þeirri einföldu ástæðu að ég vil ekki fara fram með breytingar í þessari viðkvæmu atvinnugrein hringinn í kringum landið sem skilja eftir sig hagræn áhrif sem enginn hefur séð fyrir.