139. löggjafarþing — 153. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:41]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmanni hefur misheyrst. Ég sagði einmitt ekki að ekki hefði verið horft til byggðaþátta í þessum málum. Ég var í raun og veru að rökstyðja hið gagnstæða, að það væri löngu uppgert mál að menn gætu ekki keyrt fiskveiðistjórnarkerfið, hvort sem er nákvæmlega í núverandi mynd eða einhverri annarri, öðruvísi en hafa einhver úrræði tiltæk til að mæta öðrum gildum mikilvægum sjónarmiðum eins og félagslegum og byggðalegum þáttum. Það var það sem ég var að segja og vitnaði til ársins 1991 í þeim efnum. Deila má svo um hversu hönduglega mönnum hefur tekist til. Það er dálítið annað. Það er ekkert draumafyrirkomulag í þessu ef ég mætti ráða.

Ég hefði miklu frekar séð það fyrir mér, sérstaklega vegna minnstu staðanna, að strandveiðar og einhvers konar byggðaheimildir sem betra væri kannski að kalla vinnsluheimildir og útfæra þannig, væru til staðar til að tryggja visst lágmarksöryggi og vissan grunn vegna þess að ég sætti mig svo illa við, og ég held að ég muni aldrei gera það, að það geti gerst endurtekið og aftur að allt í einu sé hlutunum kippt undan heilum byggðum sem hafa byggst upp og þróast og eru það sem þær eru vegna þess að þær lágu vel við fengsælum miðum. Það verður alltaf að vera einhver grunnur, einhverjir möguleikar til að menn geti byggt sig upp aftur á einhverjum lágmarksgrunni. En síðan þurfa þessi kerfi auðvitað að þróast eins og öll önnur og engum dettur í hug að hægt sé að hafa hlutina óumbreytilega um aldur og ævi, við erum ekki að tala um það hér.

Varðandi arðinn eða framlegðina eru aðstæður náttúrlega óvenjuhagstæðar fyrir greinina, því verður ekki á móti mælt. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að ef ekki væri fyrir skuldirnar væri greiðslugeta útvegsins núna gríðarleg, bæði miðað við gengisstig og afurðaverð, framlegðin gríðarleg og eðlilegt að þjóðin fengi hluta af því í auðlindarentu.