139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

orð forseta Íslands um Icesave.

[10:39]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það má út af fyrir sig taka undir það með hæstv. fjármálaráðherra að það sé óheppilegt að ríkisstjórnin munnhöggvist við forsetann, enda ber hann samkvæmt stjórnarskránni ekki ábyrgð á þeim embættisfærslum sem hann framkvæmir eftir tilmælum ráðherranna. Staðan er engu að síður sú að forsetinn hefur blandað sér í þetta viðkvæma mál. Forsetinn heldur því fram opinberlega, á Íslandi og við erlenda fjölmiðla, að íslensk stjórnvöld hafi gert hrapalleg mistök og ég verð að segja fyrir mitt leyti að mér finnst algerlega óásættanlegt að íslenska þjóðin fái þau svör frá ríkisstjórninni og þeim sem hafa farið fyrir í þessu máli að þeir telji rangt að blanda sér í umræðuna og ætli ekki að bregðast við. Það á bara að skila auðu. Er það vegna þess að málið sjálft þolir ekki umræðu eða ætla menn að fela sig á bak við einhverjar stjórnskipunarreglur?

Mér finnst þetta ekki boðlegt, ég verð að segja það fyrir mitt leyti. Mér finnst að íslenska þjóðin eigi skilið að fá viðbrögð (Forseti hringir.) við þessum harkalegu ummælum og því sem kalla má hreinlega árásir forsetans á ríkisstjórnina í þessu máli. Þær voru reyndar ekki að tilefnislausu.