139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

virðisaukaskattur o.fl.

898. mál
[12:06]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta hefur verið mjög athyglisverð umræða. Ég fagna því að formaður nefndarinnar, hv. þm. Helgi Hjörvar, telur rétt að sækja fram og lækka skatta. Ég hélt ræðu hér í þinginu á föstudag þar sem ég taldi rétt að láta af skattahækkunarstefnu ríkisstjórnarflokkanna, þ.e. Samfylkingar og Vinstri grænna, og rétt að sækja frekar fram og lækka skatta. Ég sé hér örlitla von um einhver viðbrögð í þá áttina. Hér er verið að gefa eftir af skatttekjum ríkissjóðs og veita skapandi greinum ívilnanir, eins og frumvarpið ber merki um.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvort fleiri atriði hafi verið skoðuð. Nú erum við með ívilnandi þætti varðandi endurbætur á eigin húsnæði eins og hv. þingmaður kom inn á. En hefur verið skoðað hvort útvíkka eigi það og láta það taka til endurbóta á t.d. húsgögnum og slíku? Þetta er hluti af átakinu Allir vinna eins og kom fram. Við erum með margs konar íslenska iðnaðarmenn sem hafa lent í því að verkefnum hefur fækkað verulega, það hefur ekki eingöngu verið varðandi húsnæði eða ekki eingöngu á verksviði þeirra sem sinna þeim málum heldur líka á öðrum sviðum. Hefur þetta verið skoðað og er einhver vinna í gangi af hálfu nefndarinnar til að útvíkka þessar ívilnanir?

Ég held að flestir átti sig á því að svarta hagkerfið fer sífellt vaxandi. Ein af meginskýringum þess er þessi ofurskattstefna ríkisstjórnarflokkanna. Hefur nefndin skoðað fleiri atriði? Og hvað hefur nefndin rætt um að gera varðandi þessa stækkun svarta hagkerfisins?