139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

virðisaukaskattur o.fl.

898. mál
[12:13]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hvað það varðar hvort gera eigi endurgreiðslur vegna endurbóta á húsnæði að varanlegum þætti í skattkerfinu þá er ég þeirrar skoðunar að endurgreiðslur á virðisaukaskattinum eigi að vera varanlegt fyrirkomulag hjá okkur. Ég held hins vegar að viðbótarendurgreiðslan á tekjuskattinum sé augljóslega fremur hagfelld í erfiðu atvinnuástandi eins og nú er og gæti vikið ef mikil þensla verður á þessu sviði eins og var fyrir nokkrum árum. Ég held að það sé býsna ódýrt að segja að maður skattleggi sig ekki út úr kreppu. Ég held satt að segja að við séum komin langleiðina með að vera búin að skattleggja okkur út úr kreppu. Þegar það er kreppa verða menn að grípa til aðgerða. Þær eru auðvitað erfiðar og óvinsælar og það er þeim sem hér stendur og mörgum í stjórnarliðinu sannarlega ekkert sérstakt gleðiefni að hafa þurft að hækka skatta verulega til að mæta því mikla áfalli sem hér varð. Það er nú einmitt með orðið kreppu að þegar hún er skollin á er of seint að hafast að um það sem olli henni. Menn verða að fást við afleiðingarnar, meðal annars að taka slíkar ákvarðanir.

Nú erum við hins vegar komin í gegnum versta storminn. Vöxtur er hafinn í efnahagsstarfseminni á ný. Spáð er nærri 3% hagvexti á þessu ári, nærri því hinu sama á næsta ári, enn á hinu þriðja árinu, svo að hægt og rólega erum við nú að rísa úr öskustónni. Tækifæri eru að skapast til að fara með jákvæðum hætti inn í atvinnulífið og gefa eftir í gjöldum, lækka skatta þar sem það er skynsamlegt og til þess fallið og draga úr svartri atvinnustarfsemi og til að efla atvinnulífið og auka umsvifin í hagkerfinu og ná helst enn meiri vexti (Forseti hringir.) en þeim 3% sem útlit er nú fyrir.