139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

störf þingsins.

[10:32]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Kastljóssviðtalið í gær við fyrrverandi formann þingflokks Samfylkingarinnar var merkilegt. Það var gott viðtal og skemmtilegt á að hlýða og um leið vil ég segja að það er alltaf erfitt að sjá á eftir góðu fólki, frjálslyndu og öfgalausu fólki, sama í hvaða flokki það er.

Þórunn er eldri en tvævetur í pólitík og það var margt merkilegt sem hún sagði, m.a. um stjórnarsamstarfið. Ég vil eiga orðastað við formann þingflokks Vinstri grænna því að Þórunn Sveinbjarnardóttir sagði að ákveðnir þingmenn stjórnarflokkanna þyrftu greinilega meira úthald annars vegar — og það væri gott að vita hverjir það eru — og hins vegar að ríkisstjórnin þyrfti í sjálfu sér uppstokkun á miðju kjörtímabili. Ég held að þetta sé flestum skiljanlegt sem hlýddu á Þórunni í gær. Við erum að upplifa það í dag í ríkisstjórninni, sem Þórunn sagði í gær að hefði verið mynduð utan um umsóknina að ESB, að einn ráðherrann vill bara alls ekkert við ESB tala en annar í ríkisstjórninni segir nei, að við megum ekki tala við Kínverja. Ég get minnst á Byggðastofnun svo ég tali ekki um öll önnur mál. Það er hægt að tala um ofurtollana sem einn ráðherra í ríkisstjórn setur á gegn neytendum en annar segir á þingi í gær að þessir ofurtollar hafi verið vanhugsaðir. Þá er ég ekki byrjuð að tala um stóru málin, ósamkomulagið sem er í orku- og virkjanamálum sem og alkulið í fjárfestingum í sjávarútvegi. Það er hægt að halda lengi áfram enda er þessi listi langur.

Þess vegna spyr ég hv. formann Vinstri grænna hvort hún sé sammála Þórunni um að ákveðnir þingmenn þurfi meira úthald innan stjórnarliðsins. Í öðru lagi spyr ég hvort hún sé sammála því að rétt sé að stokka upp í ríkisstjórninni og í þriðja lagi hvort hún sé ekki sammála mér í því að ríkisstjórnin sé komin í sjálfheldu og að við þurfum að boða til kosninga strax. Það er ekki sísta spurningin.