139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

stjórnarsamstarfið -- sala Sjóvár -- nefndafundir -- ESB o.fl.

[11:02]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir spyr hvort þessi ríkisstjórn hafi verið stofnuð til að sækja um aðild að ESB. Svo var ekki, en við þekkjum öll ferilinn. Þetta mál fór fyrir hv. Alþingi sem samþykkti að senda inn aðildarumsókn, láta reyna á samninga sem yrðu síðan bornir undir þjóðina. Ég er lýðræðissinni og lýt vilja meiri hluta Alþingis og þetta mál er í þeim farvegi þar sem það er. Allir þekkja afstöðu Vinstri grænna til þessa máls en ég er ekki þannig þenkjandi að þegar búið er að boða til kosninga hætti menn við út af skoðanakönnunum. Eins og staðan er í dag á þjóðin þann rétt að ljúka þessu máli með kosningum.

Innan sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar hefur verið samþykkt að boða til opins fundar um gang aðildarviðræðna við ESB og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson kom inn á það áðan. Beiðni hans var samþykkt þegar þing hóf nefndafundi í byrjun ágúst. Það er innan við mánuður sem þessi samþykkt hefur legið fyrir og það er unnið að því af hálfu Alþingis að koma á opnum fundi með landbúnaðarnefnd og utanríkismálanefnd. Innan utanríkisráðuneytisins er verið að finna tíma fyrir hæstv. utanríkisráðherra til að koma fyrir nefndirnar. Svar hefur legið fyrir frá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að hann komi fyrir nefndina svo nú þarf að finna tíma, stað og stund til að koma þessum fundi á. Ég held að það sé bara hið besta mál að fá á þessum opna fundi (Forseti hringir.) opnari umræður um aðildarviðræðurnar fyrir alla þjóðina.