139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

skattlagning á kolvetnisvinnslu.

702. mál
[11:43]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum tvö frumvörp um skattlagningu á kolvetnisvinnslu sem kemur til af því að menn telja að við Drekasvæðið svokallaða sé að finna olíu sem reyndar er afskaplega erfitt að ná í vegna þess að hún er á miklu dýpi og svo er yfir jarðlögunum hraun, að talið er. Það þarf að fara í gegnum það, og það er mjög erfitt, með bergsjármælum og öðru slíku til að finna hvort olía er undir eða ekki. Þetta er vandinn sem menn eiga við að glíma, auk þess sem þarna eru mjög rysjótt veður og alls ekki sérstaklega vænt til að vinna þessa olíu.

Af því að við erum að setja sérlög um þessa atvinnugrein langar mig til að koma inn á samspil borana og vinnslu olíu, verðs á olíu á heimsmarkaði og notkunar hennar.

Olía er takmörkuð auðlind, menn vinna ekki sömu olíuna tvisvar. Það er munur á vatnsaflsvirkjunum, þar sem hvert tonn sem rennur fram hjá er í rauninni glatað ef það er ekki virkjað, og varmavirkjunum sem talið er að séu í einhverjum skilningi takmarkaðar að samt er hægt að taka af þeim hæfilega mikið um aldur og ævi vegna varmaútgeislunar jarðar. Olía er takmörkuð auðlind og menn gleyma því oft að olía, kol og gas eru lífrænar auðlindir sem hægt er að nýta í eitthvað allt annað en kveikja í þeim. Lífrænar auðlindir er hægt að nota til að búa til plast og mjög margt annað sem við búum við og það má vel vera að eftir einhverja áratugi muni menn spyrja sig hvers vegna í ósköpunum við höfum kveikt í þessu í staðinn fyrir að nota það í nytsamlega hluti. En það er önnur saga.

Þegar mikið er borað lækkar verðið væntanlega. Sérstaklega þegar miklar olíulindir finnast einhvers staðar lækkar verðið á heimsmarkaði, að öðru óbreyttu. Þegar lítið er borað hækkar verðið og þegar verðið hækkar minnkar neyslan. Það sjáum við á götum Reykjavíkur, það er mjög áberandi, um allt land líka og um allan heim. Þetta kemur inn í umræðuna um hitnun jarðar og mengun af völdum koldíoxíðlosunar. Koldíoxíð myndast þegar kolefni er brennt og kolefni er ein meginuppistaðan í nýtingu á olíu, kolum og gasi. Þegar mikið er borað, mikið finnst af olíu og verðið lækkar vex neyslan og þar með mengun jarðar.

Þess vegna átti ég von á því að þeir hv. þingmenn sem eru eindregnir umhverfisverndarsinnar og vilja fyrir enga muni valda koldíoxíðmengun yrðu mjög mikið á móti þessari atvinnugrein, vildu ekki bora eftir olíu og ekki veita sérstaka skattafslætti í því skyni. En svo er ekki því að þeir virðast ekki hafa áttað sig á þessu samhengi hlutanna. Ég trúi ekki öðru vegna þess að það sem álver menga á Íslandi er miklu minna en það sem olíufundur á Drekasvæðinu mundi menga um alla jörð, fyrir utan það að til álvinnslu á Íslandi er notuð hrein orka þannig að mengunin er miklu minni hér á landi en við jafnstórt álver í Kína eða í Arabíu þar sem einmitt núna er verið að byggja gífurlegan fjölda af álverum. Mér skilst að álver sé opnað aðra hverja viku eða eitthvað slíkt, ég hef ekki alveg þá tölu en það er mjög mikil þróun í Kína, enda er Kína gífurlega stórt land, mannfjöldi þar mikill og öll virkni þar í atvinnulífinu er þúsundfalt meiri en hér, eða enn meira.

Þess vegna ættu íslenskir umhverfisverndarsinnar að bjóða fram og biðja um að reist yrðu álver á Íslandi vegna þess að þau menga í heildina miklu minna, þ.e. framleiðsla á einu kílói af áli kostar miklu minni mengun á Íslandi en í öðrum löndum þar sem notað er rafmagn sem framleitt er með brennslu kola, olíu og gass. En þetta hefur ekki alveg náð í gegn af því að menn virðast líta á Ísland sem einhvern afmarkaðan heim og á allt öðrum hnetti en Kína, Sádi-Arabía og Suður-Afríka þar sem ál er einmitt framleitt með rafmagni sem er unnið með brennslu kola, olíu og gass.

Mér finnst dálítið skorta á það, frú forseti, að menn hafi heildræna yfirsýn yfir málin og þar af leiðandi ættu umhverfissinnar sem eru eindregið á móti koldíoxíðlosun að vera mjög eindregið á móti þessu frumvarpi. Í gegnum þetta frumvarp verður ekki gert neitt annað en hugsanlega unnin olía. Þar með verður meiri mengun og í kjölfarið frekari vandamál með hitnun jarðar. Þessir aðilar ættu líka að vera með því að hér sé virkjað á fullu alla daga eins mikið og menn telja að náttúran þoli til að mæta kröfum heimsins um orku. En svo er ekki og ég hef ekki enn þá skilið þá rökleysu að vilja ekki virkja hér sem allra mest í þágu heimsins til að létta af honum koldíoxíðlosun.

Nú hafa menn sagt að Ísland sé svo lítið og þetta sé allt svo lítið og ómerkilegt en það má segja um hverja einustu virkjun þar sem orka er unnin, hvar sem er. Lítil kolanáma í Kína skiptir ekki máli fyrir heimsbúskapinn. Olíulind á Drekasvæðinu eða í Sádi-Arabíu er það lítil að hún skiptir heldur ekki máli fyrir heimsbúskapinn. Ef allir hugsuðu þannig yrði náttúrlega engin barátta gegn koldíoxíðlosun. Það sem ég bind miklar vonir við er einmitt verslun með heimildir til að losa koldíoxíð. Það gæti gert Ísland mjög ríkt með tímanum vegna þess að það mundi hækka verð á eldsneyti og orku almennt um allan heim, en íslensk orka þyrfti ekki að borga þetta þannig að þetta yrði hreinn gróði fyrir íslensk orkufyrirtæki, Landsvirkjun, Rarik — og Magma líka.

Frumvarpið sem við ræðum hér er sérstaklega hannað til að mæta þeirri gífurlegu áhættu sem fylgir því að vinna olíu á þessu svæði og líka því að þetta er langtímafjárfesting. Við skulum ekki búast við því, frú forseti, að hagur íslenska ríkissjóðsins lagist strax næsta haust, þegar búið er að samþykkja þetta. Það gerist ekki. Þetta er fjögurra eða þess vegna tíu ára dæmi og getur verið að það komi ekkert út úr því. Það eru töluvert miklar líkur á að þarna sé enga olíu að finna eða að hún sé óvinnanleg, bundin í sandstein eða eitthvað slíkt. Það getur líka verið að með ákveðnum líkum sem enginn veit muni þarna vinnast olía sem geri Ísland að svipuðu dæmi og Noreg og önnur olíuframleiðsluríki nema það að Íslendingar eru svo miklu færri þannig að auðurinn gæti orðið verulega mikill á hvern íbúa. Þá skiptir náttúrlega máli að menn ráðstafi þeim peningum af svipaðri skynsemi og Norðmenn hafa gert með olíusjóð. Ég er farinn að hafa áhyggjur af ýmsu, svona getur maður haft áhyggjur af góðærinu sem stendur fyrir dyrum ef það skyldi finnast olía.

Þau frumvörp sem við erum að tala um, skattlagning á kolvetnisvinnslu, taka mið af þessari miklu áhættu og þessum gífurlega kostnaði sem þarf að leggja út í áður en fyrsti dropinn af olíu dettur ofan í einhverja tunnu. Það er búið að vinna málið vel í efnahags- og skattanefnd. Sérfræðingar hafa staðið að þessu og unnið með þessi frumvörp. Ég vona að þau mæti þörfum þeirra aðila sem ætla að fjárfesta með því að skattleggja til dæmis ekki frá fyrsta degi. Skattalögin eru ekki nægilega góð og ef skattlagt yrði frá fyrsta degi mundu menn ekki sjá neina hagnaðarvon sem yki enn frekar áhættuna af þeirri miklu fjárfestingu sem þarna er um að ræða. Þess vegna kemur skattlagningin eftir á og er að mínu mati mjög skynsamleg. Það er verið að skipta hagnaðinum af dæminu ef það skyldi ganga upp og ekki verið að lesta stofnkostnaðinn umfram það sem nauðsynlegt er. Hann er sem sagt lestaður eins lítið og hægt er til að minnka áhættu þeirra aðila sem þarna munu bora.

Sú áhætta er umtalsverð. Mér finnst að íslenskir stjórnmálamenn og Íslendingar almennt þurfi að fara að gera sér grein fyrir áhættu. Þeir ættu öðru hvoru að spila lúdó og henda teningi og átta sig á því að sexan kemur upp öðru hverju.