139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:34]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ólöfu Nordal fyrir prýðilega ræðu þar sem hún fór yfir stöðu mála. Við erum miklir áhugamenn um að létta af þessum höftum og hv. þingmaður fór ágætlega yfir það áðan hvaða forsendur þurfa að vera til staðar í efnahagslífi þjóðarinnar til að svo megi verða og að við búum ekki við þær aðstæður í dag.

Mín spurning til hv. þingmanns er hvort við gætum staðið í einhverjum öðrum sporum í dag ef við hefðum á undangengnum tveimur árum eða svo búið við annað stjórnarfar en við gerum? Hver er staðreynd mála? Óstöðugleiki í sjávarútvegsmálum vegna óljósra fyrirætlana ríkisstjórnarinnar um framtíðarstefnumörkun í þeim málaflokki hefur valdið því að tugir milljarða, jafnvel hundruð milljarða, sitja núna eftir án þess að hafa verið festir í þeirri atvinnugrein á undangengnum árum.

Við horfum líka upp á að skuldaúrlausn fyrirtækja í landinu gengur allt of hægt og þess vegna er stór hluti atvinnulífsins enn í dróma vegna þess að ríkisstjórnin hefur valið þar ranga leið og of flókna til að leysa úr skuldavanda lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

Maður veltir líka fyrir sér öllum þeim hugmyndum sem hafa verið um fjárfestingu í atvinnulífi, þá tala ég um virkjanaframkvæmdir og framkvæmdir tengdar þeim, sem ríkisstjórnin hefur ekki tekið opnum örmum. Telur hv. þingmaður, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, ekki að staðan væri öðruvísi í dag ef við hefðum haldið öðruvísi á málum á undangengnum tveimur árum? Ætli aðstæðurnar væru þá ekki þannig að við gætum með markvissari hætti létt af þessum höftum sem mundu þá hafa mjög góð áhrif á fjárfestingu í íslensku atvinnulífi (Forseti hringir.) og hagkerfið í heild sinni?