139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:40]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Við erum auðvitað sammála um það, við hv. þingmaður, varaformaður Framsóknarflokksins, Birkir Jón Jónsson, að þessi ríkisstjórn þyrfti fyrir löngu að vera farin frá. Ég er reyndar stundum á þeirri skoðun að faktískt sé engin ríkisstjórn starfandi í landinu. Maður spyr sig hvort svo sé. Einhvern veginn finnst mér hæstv. ráðherrar koma afskaplega pirraðir til þings eftir þetta fallega sumar þannig að ekki lítur vel út með veturinn.

Varðandi skattkerfið er óskiljanlegt að ríkisstjórnin skyldi hafa ákveðið að kollvarpa því eins og gert var. Hún hafði áhuga á að hækka skattana. Við höfum aðrar skoðanir á því en þessir flokkar gátu alveg hækkað skattana á grundvelli þess kerfis sem var en þurftu ekki að umbylta því. Niðurstaðan er sú að við sjáum miklu meiri skattundanskot. Svarta hagkerfið er að eflast. Og hverjir tapa á því? Íslenskar fjölskyldur.