139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:45]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það gladdi mig mjög að heyra hv. þingmann velta fyrir sér kostum krónunnar í gegnum tíðina vegna þess að við megum ekki alveg líta fram hjá þeim þegar við tökum ákvörðun um svona stór mál eins og gjaldmiðilsmál. Vissulega hefur krónan hjálpað okkur við að fást við hinar miklu efnahagssveiflur sem við höfum upplifað alla 20. öldina og auðvitað 21. öldina fram að þessu.

Ég var ekki síður ánægður með áherslu hv. þingmanns á það að við þyrftum að reyna að takmarka þessar sveiflur sem mest en þá er spurningin: Hefði ekki einmitt þurft að nýta þetta tímabil, síðustu tvö, þrjú ár, á meðan krónan hefur verið svona veik, verið svona lágt skráð, til þess að efla útflutningsgreinarnar sérstaklega, byggja hér upp fjölbreyttara atvinnulíf, því að það hlýtur að vera ein af meginforsendum þess að við getum dregið úr sveiflunum að atvinnulífið sé fjölbreytt? Er ekki þess vegna einstaklega óheppilegt að menn skuli hafa látið tvö, þrjú ár fara til spillis á meðan gjaldmiðillinn hefur verið svona lágt skráður og ekki náð inn þeirri fjárfestingu sem ég tel alveg ljóst að hafi verið möguleiki á? Það liggur reyndar alveg fyrir að fjölmörg erlend og innlend fyrirtæki hafa lýst yfir áhuga á að fjárfesta hér en stefna stjórnvalda, þessi pólitíski óstöðugleiki, ekki hvað síst í skattamálum og óvissan um orkuöflun, hefur hins vegar komið í veg fyrir þá fjárfestingu.

Ef hv. þingmaður er sammála mér um það er hún þá ekki líka sammála mér um að það sé ekki seinna vænna að fara að nýta veikleika gjaldmiðilsins nú til þess að byggja upp fjölbreytilegra atvinnulíf sem þá vonandi dregur úr sveiflunum í framtíðinni?