139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:49]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég er auðvitað alveg sammála þessu mati hv. þingmanns að ríkisstjórnin er sjálfstætt efnahagsvandamál. En er hv. þingmaður sammála mér um að það vandamál nái líka til gjaldeyrishaftanna og stöðu krónunnar? Þar er ég að vísa til þess að ráðherrar í ríkisstjórninni, jafnvel ráðherra efnahagsmála, og seðlabankastjórinn tala um eigin gjaldmiðil með þeim hætti að það er stórskaðlegt. Seðlabankastjórar t.d. eru yfirleitt mjög varfærnir menn sem gæta sín mjög á því hvað þeir segja. Sama á við um efnahagsráðherra. Ég held að hvergi annars staðar, a.m.k. ekki í Evrópu, létu menn í þessari stöðu sér koma til hugar að fara að tala niður eigin gjaldmiðil og lýsa því í rauninni yfir að hann sé ónýtur og verði hér í höftum um ókomna tíð nema skipt verði um gjaldmiðil.