139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[11:25]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Það var ein fullyrðing um að við mundum hafa gjaldeyrishöftin áfram. Ég vona svo sannarlega að það verði ekki. Ég vona sannarlega að skynsemin nái undirtökunum hjá hæstv. ríkisstjórn og menn hafi hugrekki og framtíðarsýn til að geta aflétt höftunum. (BJJ: Rétt.) Mikilvægast fyrir það að aflétta höftunum er framtíðarsýnin, að segja þjóðinni: Svona ætlum við að hafa þetta, þangað stefnum við. Um leið og menn segja það kemur traustið á bæði efnahagslífið og krónuna sem er því miður mjög þverrandi.

Það er rétt hjá hv. þingmanni, það er eins og að þessari hæstv. ríkisstjórn sé illa við fjárfestingar, illa við það að eitthvað sé gert. Án fjárfestingar er engin atvinna og það er einmitt það sem við þurfum mest á að halda. Atlagan að sjávarútveginum einmitt núna — ég hef miklar efasemdir um eignarhald á kvóta. Ég hef lagt fram tillögu um að dreifa honum á þjóðina — en einmitt núna eiga menn ekki að gera það. Þegar þjóðin er að koma út úr efnahagshruni eiga menn ekki að standa í svoleiðis æfingum. Það er hægt að gera eftir fimm eða tíu ár. Vandinn við eignarhaldið á kvótanum hleypur ekki frá okkur.

Hv. þingmaður nefndi ýmislegt fleira sem ríkisstjórnin er að gera í óþökk fjárfestinga. Ég held að fyrst og fremst þurfi að breyta viðhorfi hæstv. ríkisstjórnar til fjárfestinga. Nýjasta dæmið er með þennan Kínverja sem vill kaupa stóra jörð og kemur með alveg nýjar hugmyndir. Þar birtust mjög neikvæð viðbrögð. Menn eiga að horfa á þetta efnislega og fara í gegnum kosti og galla, hættur og annað slíkt málefnalega, en ekki vísa hugmyndinni alfarið á bug eins og heyrst hefur hjá sumum hv. þingmönnum.