139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[11:41]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Hér fer fram mikilvæg umræða um það hvernig við ætlum að haga efnahagsmálum þjóðarinnar til næstu ára, til áramóta 2015/2016, hvernig umhverfi atvinnulífsins og íslensks almennings verður þegar kemur að peningamálum og aðgengi og frelsi til athafna.

Það vekur því mikla athygli að við skulum sitja hér í salnum þrír þingmenn Framsóknarflokksins og hv. þm. Lilja Mósesdóttir (SKK: Ásamt.) ásamt hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni og hæstv. forseta sem hér situr en enginn einasti stjórnarliði er viðstaddur slíka grundvallarumræðu sem snertir hvert einasta heimili í landinu og hvert einasta fyrirtæki. (Gripið fram í: Hvar eru ráðherrarnir?) Maður veltir líka fyrir sér: Hvar eru þeir hæstv. ráðherrar eða sá hæstv. ráðherra sem lagði fram upphaflega frumvarpið sem hefur sem betur fer aðeins verið breytt?

Ég ætla bara að minna á eitt ákvæði í því en þar átti að lögfesta ákvæði þess efnis að ef fólk vogaði sér að koma hingað til lands með klink í vasa, nokkrar evrur eða dollara, og gleymdi að skila því til viðkomandi fjármálastofnunar lá við því mikil refsing, sekt eða jafnvel fangelsisvist ef brotið yrði stórfellt. Þvílíkt ímyndunarafl sem hæstv. ráðherrar hafa og ríkisstjórn að leggja fram frumvarp sem felur þetta í sér, fyrir utan að ákvæðið hefði orðið mjög atvinnuskapandi því að það eftirlit sem mælt var fyrir í fyrra frumvarpinu eða því frumvarpi sem nú hefur verið breytt hefði leitt af sér að stórfjölga hefði þurft starfsmönnum í gjaldeyriseftirliti Seðlabankans og hjá hinum og þessum fjármálastofnunum. Það stóð jú til að rannsaka sérstaklega hvort fólk hefði yfir höfuð efni á því að kaupa sér gjaldeyri til að fara utan. Þetta frumvarp hefur því að mörgu leyti verið einstakt í umræðunni í þinginu, ég efast um að jafnilla unnið frumvarp hafi komið inn á þing á seinni árum og má meiri hluti nefndarinnar eiga það að þessu frumvarpi hefur þó verið breytt í rétta átt.

Með lögfestingu gjaldeyrishafta árið 2008 stóð til að þau mundu gilda í um tvö ár. Það var varað við því þá að með setningu gjaldeyrishafta gæti verið erfitt að losna úr þeim vítahring vegna þess að höft kalla á meiri höft og nú stöndum við á haustmánuði ársins 2011 og erum að tala um að framlengja gjaldeyrishöftin fram til áramóta 2015/2016. Í þessu felast mjög alvarleg skilaboð frá ríkisstjórninni um stöðu efnahagsmála. Ef við höfum ekki trú á efnahagskerfinu og þeirri efnahagsstefnu sem við höfum fylgt eigum við þá að ætlast til þess að þeir aðilar sem vilja fjárfesta í íslensku atvinnulífi eða íslenskur almenningur hafi trú á þeim gjaldmiðli sem við búum við? (PHB: Að sjálfsögðu ekki.) Að sjálfsögðu ekki, segir hv. þm. Pétur Blöndal, og þess vegna er þessi umræða svo mikilvæg, grundvallarumræða um það hvert við stefnum.

Gjaldeyrishöft koma í veg fyrir að einstaklingar og lögaðilar geti farið í aðgerðir sem eru nauðsynlegar til að koma á fót heilbrigðum fjármálamarkaði á ný. Þetta kemur í veg fyrir aðgengi íslensks atvinnulífs að hagstæðum lánskjörum og fleira mætti nefna. Þetta ástand leiðir það af sér að fjárfesting í íslensku atvinnulífi minnkar til muna og þar af leiðandi horfum við upp á að 16 þús. Íslendingar eru án atvinnu og um 25 þús. störf hafa glatast frá hruni.

Það er fátt sem bendir til þess, frú forseti, að við séum að snúa þessari óheillaþróun við. Það er ótti minn og margra annarra að verði þessi ákvæði felld í lög sendum við frá okkur þau skilaboð að þetta ástand verði viðvarandi fram til áramóta 2015/2016 með þá reynslu í farteskinu að við höfum verið að ganga á bak orða okkar varðandi afléttingu gjaldeyrishaftanna ítrekað á undangengnum árum. Þau áttu fyrst að vera til tveggja ára, síðan voru þau framlengd og því næst voru þau hert og endalaust er verið að reyna að bæta í þá leku dós sem gjaldeyrishöftin eru. Aðilar aðlaga sig einfaldlega að þeim aðstæðum sem uppi eru og nú höfum við í efnahags- og skattanefnd fengið fréttir af því að fjölmargir aðilar í íslensku atvinnulífi hafi ákveðið að auka umsvif sín erlendis utan við gjaldeyrishöftin þannig að sá virðisauki sem þar mun verða til verður fyrir utan íslenskt efnahagslíf. Það eru mjög alvarleg tíðindi sem við, hv. þingmenn, verðum að hlusta á vegna þess að þróun sem þessi mun stórauka á þann vanda sem blasir við okkur og skilaboðin eru slæm.

Við þurfum ríkisstjórn sem segir: Stefnan er þessi. Við þurfum ríkisstjórn og stjórnvöld sem segja: Við gefumst ekki upp, við ætlum að sækja fram! Hvernig gerum við það? Við gerum það ekki með þeirri stefnu sem hefur verið ástunduð á undangengnu tveimur og hálfu ári sem hafa eingöngu miðast við að vera í sífelldum varnarleik. Við horfum enn þá upp á það að lítil og meðalstór fyrirtæki í landinu hafa ekki fengið úrlausn sinna mála, sú vinna gengur allt of hægt. Við horfum upp á skuldug heimili sem hafa ekki fengið leiðréttingu á stökkbreyttum skuldum sínum, að við tölum nú ekki um undirstöðuatvinnugreinar þjóðarinnar. Horfum á sjávarútveginn sem gæti núna á undanförnum tveimur árum verið búinn að fjárfesta fyrir tugi milljarða króna í uppbyggingu á innviðum sínum sem hefði leitt það af sér að þúsundir beinna og afleiddra starfa við þá atvinnugrein hefðu skapast. En hvað gerir ríkisstjórnin þá? Hún kemur fram með hugleiðingar og hugmyndir um að gjörbylta öllu umhverfi sjávarútvegsins. Það eru 30 þús. manns sem með einum eða öðrum hætti hafa sitt lifibrauð af sjávarútvegi, það er ekkert öðruvísi. Þá kemur hin rómantíska ríkisstjórn og boðar allsherjar uppstokkun á umhverfi sjávarútvegsins. Nú er ég ekki að segja það að ekki megi breyta lögum um stjórn fiskveiða. Ýmsu má breyta í þeim efnum en sú mikla bylting sem ríkisstjórnin boðaði hefur leitt það af sér að menn hafa eðlilega haldið að sér höndum í fjárfestingum í þessari atvinnugrein sem hefur svo leitt það af sér að þúsundir starfa hafa tapast á þessu sviði.

Eigum við að fara yfir fleira úr afrekaskrá ríkisstjórnarinnar þegar kemur að stöðu efnahagslífsins í dag? Við skulum bara taka breytingar á skattkerfinu sem dæmi. Ég man þegar ríkisstjórnin tók við á árinu 2009 og var að semja fjárlög ársins 2010. Þá var komið fram með grundvallarbreytingar á skattkerfinu um mánaðamótin nóvember/desember það ár og þær breytingar áttu að eiga sér stað 1. janúar árið eftir, þ.e. eftir um það bil mánuð. Við höfðum hér í þinginu nokkra daga til að fjalla um grundvallarbreytingar á skattkerfinu. Það var varað við þeim úr öllum áttum — aðilar vinnumarkaðarins, endurskoðendur, starfsfólk á skattstofum og fleiri og fleiri vöruðu við því að breyta skattumhverfi íslensks atvinnulífs og heimila með þeim hætti sem gert var. Þar voru gerð mikil mistök við lagasetningu sem hafa leitt það af sér að Alþingi hefur á undangengnum tveimur árum þurft að leiðrétta ýmsar vitleysur sem þá voru gerðar en varað var við, eins og ég sagði áðan.

Hvað hefur þetta leitt af sér? Jú, hvati til fjárfestingar í íslensku atvinnulífi í kjölfar þessara breytinga minnkaði. Það var verið að flækja skattkerfið, gera það ógagnsærra og skilaboð stjórnvalda á þessu tveimur og hálfa ári hafa verið þau að hér sé mjög óstöðugt umhverfi fyrir íslenskt atvinnulíf sem hefur leitt það af sér að fjárfesting hefur minnkað stórum, hefur ekki orðið eins mikil og hún hefði annars getað orðið.

Mig langar líka að vitna til þeirra tækifæra sem okkur bjóðast við að virkja til að mynda náttúruauðlindir okkar á norðausturhorni landsins eða á Suðurlandi. En við vitum að mikil andstaða er hjá ríkisstjórnarflokkunum, alla vega hluta þeirra, gagnvart þeim áformum. Þegar ríkisstjórnarmeirihlutinn styðst einungis við einn mann er eðlilegt að fátt eða lítið gerist í þeim efnum þrátt fyrir að við höfum haft gríðarlega möguleika á undangengnum tveimur árum til að nýta þau tækifæri. Þessi ár hafa fjarað út og leitt til þess að 16 þús. Íslendingar eru án atvinnu. Við erum í sögulegu hámarki þegar kemur að atvinnuleysi og atvinnuleysi er eitt það versta böl sem hægt er að gera nokkrum manni og hefur mikil áhrif á fjölskyldur. Nú er svo komið að fjöldi þeirra sem hafa verið án atvinnu í meira en eitt ár er yfir 5 þús. manns. Þetta er mikið tjón fyrir íslenskt samfélag og hefur valdið miklum erfiðleikum á mörgum stöðum eins og ég vona að við þekkjum flest.

Af hverju er ég að segja þetta? Ég er að segja að umhverfi efnahagsmála og framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar þegar kemur að því veldur því að erfiðara er núna en ella hefði orðið að aflétta höftunum með skjótvirkum hætti. Værum við á fullri ferð í uppbyggingu í sjávarútvegi, í orkufrekum iðnaði, búin að gera skattumhverfi íslensks atvinnulífs með þeim hætti að fjárfesting væri aukin á þeim slóðum eða ef við hefðum farið í vitrænar breytingar á íslenska skattkerfinu sem hefðu hvatt til fjárfestingar en ekki latt, einfaldað kerfið en ekki flækt, þá værum við ekki í þessum sporum í dag.

Það er gömul tugga að ræða um þessa ríkisstjórn sem flestallt virðist ætla að verða að ógæfu. En það versta er að sú ógæfa á ekki bara við um ríkisstjórnina, sú ógæfa leiðir það af sér að í dag eru erfiðleikar margra fyrirtækja og þúsunda íslenskra fjölskyldna staðreynd. Ef menn ætla að samþykkja frumvarp með þeim skilaboðum að við ætlum að hafa gjaldeyrishöft hér á landi til áramóta 2015/2016, hafandi séð fortíðina þar sem menn hafa ekki staðið við áætlanir um afléttingu haftanna, er ekki um glæsilega framtíðarsýn að ræða hér. Gjaldeyrishöft til lengri tíma litið veikja gjaldmiðilinn sem þýðir að kaupmáttur hér á landi mun þar af leiðandi minnka. Ég hélt að við værum komin með nóg af þeirri þróun sem blasir nú við mörgum íslenskum fjölskyldum. Þetta dregur líka úr samkeppnishæfni landsins, samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Höftin, eins og þau eru, virka þannig á íslenskt atvinnulíf að krafturinn minnkar, hvatinn til að vera með starfsemi sína utan haftanna — menn reyna að finna einhverjar leiðir til þess — leiðir til þess að verðmætasköpunin sem þar á sér stað mun ekki skila sér í íslenskan ríkissjóð eða til íslenskra sveitarfélaga ef því er að skipta. Þetta leiðir af sér vandamál og erfiðleika og við þurfum að koma í veg fyrir að það verði samþykkt.

Það er undarlegt, frú forseti, að enginn stjórnarliði skuli vera á mælendaskrá í því grundvallarmáli sem við ræðum hérna. Við erum að ræða um afkomu hverrar einustu fjölskyldu hér á landi fram til áramóta 2015/2016, við erum að ræða um starfsumhverfi íslensks atvinnulífs og það er eins og við séum að ræða um eitthvert létt dægurmál. Menn verða að sýna þessu máli þá virðingu að um sé að ræða grundvallarmál, við erum að ræða framtíðarsýn. Ef enginn stjórnarliði ætlar að taka þátt í þessari umræðu, hvað þá einhver ráðherra í ríkisstjórninni, er það bara dæmi um eitt: Framtíðarsýnin er engin. Ríkisstjórnin virðist eingöngu snúast um það að halda lífi í sjálfri sér frá degi til dags. Menn geta ekki horft mánuð fram í tímann, ekki tvö ár fram í tímann. Nei, menn ætla að hanga á völdunum og láta þetta mál fara hér umræðulaust í gegn, alla vega af hálfu stjórnarliðsins, og það eru mjög slæm skilaboð (Forseti hringir.) úr frá þeirri erfiðu stöðu sem blasir við okkur.