139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[12:45]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru auðvitað stórar spurningar sem hv. þingmaður beinir til mín en sú fyrri laut að því hvort ég teldi að einhverjir aðilar mundu láta reyna á rétt sinn gagnvart þeim reglum sem við fjöllum um.

Það finnst mér blasa við. Það blasir við að þeir sem hafa hagsmuni af því að flytja fjármagn sitt til landsins sem þeir hafa komist yfir með löglegum hætti hljóta að gera ágreining um að þeim sé bannað það. Í gjaldeyrishöftum felst takmörkun eða skerðing á eignarrétti manna, rétti manna til þess að ráðstafa eigum sínum með þeim hætti sem þeir vilja. Að sama skapi felst í gjaldeyrishöftum skerðing á atvinnufrelsi manna. Hvort tveggja er varið af ákvæðum stjórnarskrár og það þarf mikið til að koma til að þau réttindi sem þar eru tryggð séu skert.

Eins og fram kom í máli mínu í gær, og kemur auk þess fram í fræðiritgerð sem Reimar Pétursson hæstaréttarlögmaður skrifaði í Lögmannablaðið að ég hygg í desember 2010, voru reglur Seðlabankans eins og þær voru settar ekki birtar í samræmi við ákvæði laga þar um og ákvæði 29. gr. stjórnarskrárinnar fyrr en eftir 26. október 2010. Þeir sem þurftu að sæta gjaldeyrishöftunum og þeim reglum sem þau hvíldu á á þeim tíma og urðu fyrir tjóni kunna að vera í þeirri stöðu að eiga einhvers konar rétt gagnvart Seðlabankanum eða íslenska ríkinu fyrir þá skerðingu (Forseti hringir.) sem reglurnar hafa falið í sér, jafnvel um tjón, þannig að það blasir við.