139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:22]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þegar þessi liður í þingstörfum er notaður eru þingmenn oft að bera upp óskir og spurningum beint til forsetans sem situr á forsetastóli. Þessi liður gæti verið mun styttri ef þingmenn fengju svör við þeim málum sem verið er að spyrja um.

Hér er þess farið á leit að þetta mál verði tekið af dagskrá þar sem það er ekki þingtækt vegna atriða sem koma fram á þingskjali sem var samþykkt í vor, að um þetta mál ætti að vera samráð og gerð úttekt á því í sumar og það afgreitt áður en þing kæmi saman.

Ég spyr enn á ný: Hvað ætlar forseti að gera við þessari málaleitan okkar þingmanna? Það er ljóst að málið er ekki þingtækt og það verður að vísa því til efnahags- og skattanefndar. Hér er verið að eyða dýrmætum tíma þingsins í að ræða mál sem er raunverulega ekki hægt að hafa á dagskrá. Ég óska eftir skýrum svörum frá forseta.

(Forseti (ÁI): Forseti vill biðja hv. þingmenn að tala í síma utan þingsalar.)