139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:52]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að menn greinir eilítið á um það hvernig ber að túlka orðið „úttekt“. Fyrir nefndina komu í ágústmánuði hagfræðingar frá virtu ráðgjafarfyrirtæki og fyrir nefndina komu lögmenn, lögfræðingar frá virtum aðilum, og fjölluðu um málið. Er það úttekt eða er það ekki úttekt? Slíkt orðastagl held ég að sé ekki hyggilegt í þeirri stöðu sem við erum komin. Við eigum bara að ræða þetta og reyna að komast að lausn um málið sem báðir aðilar geta sætt sig við.

En það vekur hins vegar athygli mína að hingað hafa komið sjálfstæðismenn án þess að minnast einu orði á þá ágætu auglýsingu sem birtist fyrir rúmum tveimur árum þar sem þeir lögðu til trúverðuga leið að upptöku evru. Menn hafa ekki fjallað neitt um það á hvaða forsendum þeir nálguðust verkefnið þá. Af hverju fáum við ekki að heyra eitthvað um framtíðarlausn Sjálfstæðisflokksins á verkefninu sem við tökumst á við? (Gripið fram í.)