139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[18:10]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert að við skulum ekki hafa leitað meira eftir aðstoð frá Norðurlöndunum. Það komu að vísu hingað í byrjun nóvember 2008 embættismenn frá Noregi til að ræða við íslenska embættismenn og ráðherra um hvernig Noregur gæti hugsanlega aðstoðað Ísland út úr þessari fjármálakreppu. Ég hef því miður ekki miklar fregnir af hvað síðan varð um þennan embættismannahóp, en fann fréttatilkynningu þess efnis að stuttu seinna hefðu forsætisráðherrar Norðurlandanna ákveðið að styðja Ísland í gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það er nú kannski rannsóknarefni fyrir fræðimenn að athuga hvað gerðist þarna á þessum tveimur vikum. Hvers vegna drógu Norðmenn til baka þá fyrirætlun sína að aðstoða Íslendinga við að komast út úr fjármálakreppunni án þess að fara til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins?

Ég verð nú að geta þess að ég er ekki mikið fyrir samsæriskenningar en eftir því sem ég skoða þessa atburðarás betur hallast ég að því að það hafi verið afar mikilvægt fyrir annan stjórnarflokkinn að trufla á engan hátt ESB-umsóknina og tryggja að enginn fýsilegri kostur en upptaka evrunnar væri í boði.

Frú forseti. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hún sé sömu skoðunar og ég á því að aðildarumsóknarþörf Samfylkingarinnar hafi þrengt mjög valkosti Íslands hvað varðar upptöku norræns gjaldmiðils.