139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[18:46]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir þessar áhyggjur hv. þingmanns. Ég óskaði eftir því í byrjun ræðu minnar að formaður nefndarinnar, hv. þm. Helgi Hjörvar, væri viðstaddur umræðuna vegna þess að þó að það sé ekki mikið bitastætt í nefndaráliti meiri hlutans kemur ýmislegt þar fram. Ég hefði gjarnan viljað heyra álit formanns nefndarinnar og kannski ekki síður Vinstri grænna sem skrifa undir þetta, sem eru hv. þingmann Þuríður Backman og Auður Lilja Erlingsdóttir, og hvaða skoðun þau hafa á því þegar stendur hér, með leyfi frú forseta:

„Samstaða virðist vera um að stefna beri að losun hafta en menn greinir á um með hvaða hætti, hversu hratt og í hve stórum skrefum.“

Hvað meina menn eiginlega með þessu? Þetta er það sem ég ætlaði að spyrja formann nefndarinnar að. Er verið að tala um 15 ár, 20 ár, 30 ár? Hvernig ætla menn að losna út úr því dýi sem þá er búið að skapa? Því að eins og ég kom hérna inn á og hv. þm. Lilja Mósesdóttir hefur sagt: Gjaldeyrishöftin búa til siðspillingu. Þau búa til möguleika fyrir ákveðin fyrirtæki til að græða heilmikið. Ég man þá tíð að innflutningsfyrirtæki voru með tvöfalda reikninga. Þau fluttu kannski inn ísskáp og þá var hann verðmetinn svo og svo margar evrur í einum reikningi og miklu færri evrur í öðrum reikningi. Það var það sem greitt var í raun og veru en hærri reikningurinn fór til gjaldeyrisyfirvalda sem veitti þá gjaldeyrisyfirfærslu sem var óþarflega há og viðkomandi aðili græddi heilmikið á þessu. Þetta er líka möguleiki á siðspillingu sem er til staðar þegar gjaldeyrishöft eru. Ég held að við séum að fara út í mjög mikið fen vegna þess að eftir smátíma hafa þessir aðilar virkilega hagsmuni af því að viðhalda gjaldeyrishöftunum, þeir sem hafa komist upp á lag með að græða á þeim.