139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[21:15]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Menn tala oft fjálglega um vinnubrögð á þinginu og menn tala um að það skipti afskaplega miklu máli að vanda til verka. Ég vildi spyrja hv. þm. Birki Jón Jónsson hvernig honum finnist að staðið hafi verið að málum í þessu stóra máli, hvort hv. þingmaður sé tilbúinn til að skrifa upp á það að staðið hafi verið við það samkomulag, sem er hvorki meira né minna en skriflegt, ef ég man rétt á þskj. 55 — (Gripið fram í: 1750.) 1750, fyrirgefðu, virðulegi forseti, að ég fór hér rangt með — og hvort hann eða flokksmenn hans hafi fengið þær upplýsingar sem þar var samið um að yrðu veittar, nánar tiltekið hagfræðileg og lagaleg úttekt á þessu stóra máli.

Ég verð að segja fyrir mitt leyti, virðulegi forseti, að mér finnst afskaplega skrýtið að hér standi menn upp, og sérstaklega eru það stjórnarliðar sem koma hingað og tala fjálglega um fagleg vinnubrögð, að vanda til verka o.s.frv., en það er eins og þeir gleymi því um leið og þeir stíga úr ræðustólnum. Ég verð að viðurkenna að mér finnst þetta fullkomlega fyrir neðan allar hellur, í fyrsta lagi að menn vinni þetta stóra mál ekki betur en raun ber vitni og í annan stað að menn séu að heykjast eða ekkert að heykjast, menn eru brattir og ætla að svíkja það samkomulag sem er hvorki meira né minna en skriflegt. Það er ekki gert sérstaklega fyrir stjórnarandstöðuna heldur fyrir þjóðina að við vinnum þetta almennilega. (Forseti hringir.) Ég vildi spyrja hv. þm. Birki Jón Jónsson hvort hann sé sáttur við þessi vinnubrögð og hvort það geti verið, (Forseti hringir.) af því að hann er nú varaformaður Framsóknarflokksins, að framsóknarmenn hafi fengið þessar úttektir. (Forseti hringir.) Ekki höfum við fengið þær. — Er ekki allt í lagi?

(Forseti (KLM): Nei, ég vil biðja ræðumann að virða tímamörk, hér er komið töluvert langt fram yfir tímann og þess vegna er slegið í bjöllu.)