139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

ársreikningar.

698. mál
[22:34]
Horfa

Frsm. viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti á þskj. 1551 um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 3/2006, um ársreikninga, með síðari breytingum.

Hér er á ferð innleiðing tiltekinna þátta ESB-tilskipunar frá árinu 2006 nr. 46 um góða stjórnarhætti félaga sem eru á skipulegum verðbréfamarkaði og innleiðing á reglugerð framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins frá 2007 nr. 1569 um eftirlit ársreikningaskrár með félögum utan EES-svæðisins sem skrá verðbréf á markaði hér á landi.

Um þetta mál er það að segja, frú forseti, að allir nefndarmenn í hv. viðskiptanefnd eru sammála því nefndaráliti sem ég mæli fyrir. Varðandi þær breytingartillögur sem nefndin gerir og fylgja á sérstöku skjali, þskj. 1552, leit nefndin til þess að Kauphöllin, Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands hafa gefið út leiðbeiningar um stjórnarhætti og því hafa flest félög á markaði hérlendis birt yfirlýsingu um stjórnarhætti sína í ársreikningi eins og tilskipunin mælir fyrir um.

Tillagan sem nefndin gerir um breytingu er að yfirlýsing um stjórnarhættina skuli koma fram í skýrslu stjórnar í stað þess að hún birtist í sérstökum kafla í ársreikningi. Þetta er í samræmi við það sem verið hefur.

Í 2. mgr. 1. gr. eru talin upp þau atriði sem eiga að koma fram í yfirlýsingunni um góða stjórnarhætti en fram kom við umfjöllun í nefndinni að upptalning ákvæðisins gengi skemur en sambærileg upptalning í leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja sem ég nefndi áðan að útgefnar hafa verið af Viðskiptaráði Íslands, Kauphöll og Samtökum atvinnulífsins. Þar er mælt fyrir um atriði sem eiga að koma fram í svokallaðri stjórnarháttayfirlýsingu. Nefndin leggur til að greinin mæli fyrir um lágmarkskröfur til þeirra félaga sem hún nær til þannig að orðunum „að lágmarki“ verði bætt við inngangsmálslið 2. mgr. Í fyrri málslið 1. töluliðar 2. mgr. 1. gr. er kveðið á um að félög skuli vísa til þeirra reglna um stjórnarhætti sem þau fylgja eða fylgja ber samkvæmt lögum og hvar þær eru aðgengilegar. Nefndin leggur til að þetta ákvæði verði útvíkkað þannig að félög geti þess einnig í yfirlýsingunni hvað það er annað sem tengist stjórnarháttum sem þau fylgja eða ber að fylgja samkvæmt lögum, svo sem tilmæli eða handbækur. Enn fremur að ef út af er brugðið skuli skýrt frá því hver frávikin eru.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem ég rakti og eru á sérstöku þingskjali.

Frú forseti. Ég hef lokið við að fara yfir tillögur og nefndarálit á þskj. 1551 en undir það rita auk þeirrar sem hér stendur Magnús Orri Schram, Guðlaugur Þór Þórðarson, Valgerður Bjarnadóttir, Birkir Jón Jónsson, Björn Valur Gíslason, Sigurður Kári Kristjánsson, Skúli Helgason og Margrét Tryggvadóttir.