139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

grein um skólabrag í grunnskólalögum.

[11:11]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar til að eiga orðastað við hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra. Á fyrri hluta þessa þings samþykktum við breytingar á lögum um grunnskóla. Þar voru nokkrar mjög mikilvægar greinar og ein var kannski sérstaklega nýstárleg, 7. gr. í því frumvarpi, sem fjallar um skólabrag. Skólabragur er nýtt hugtak í skólamenningunni. Þetta er nýtt orð sem ekki hefur verið mikið notað, jafnvel þótt allir skólar hafi verið að vinna að því að bæta skólabrag sinn. Í þessu ákvæði er talað mikið um samstarf sem ég held að sé alger forsenda þess að hægt sé að skapa góðan skólabrag.

Aðalatriði þessarar greinar er kannski það að verið er að berjast gegn einelti og félagslegri einangrun. Það skiptir mjög miklu máli. Í greininni er talað um að ráðherra sé heimilt að mæla nánar fyrir um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í reglugerð sem var sett á þessum grundvelli og það er mælt fyrir um starfrækslu fagráðs sem verður ráðgefandi í eineltismálum.

Við vitum öll að einelti er eitt mesta böl skólastarfs og kannski má segja að það sé víðar í samfélaginu. Við höfum verið með ýmis verkefni sem tengjast einelti í skólum, t.d. Olweusar-verkefnið sem talsvert fjármagn hefur verið lagt í sem og talsverð orka, og mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað er verið að gera til að fylgja þessari mikilvægu grein eftir? Hvernig gengur, hvernig verður henni framfylgt og hvernig verður haldið áfram að fylgjast með þessu máli í framtíðinni?