139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

vatnalög.

561. mál
[16:59]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og ábendinguna. Í meðförum iðnaðarnefndar var 4. mgr. 78. gr. felld brott en hún snýr akkúrat að umhverfisráðherra sem fer með yfirstjórn umhverfis- og vatnsverndar. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að benda mér á það. Það er vel að hún hafi verið tekin út vegna þess að hún á kannski ekki akkúrat heima í þeirri grein.

Hvað varðar löggjafann og sveitarstjórnarstigið get ég tekið undir með hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni. Oftar en ekki fara sveitarfélögin með skipulagsmál og það er algjörlega klárt í öðrum lögum eins og skipulagslögum. Í þeim var einmitt rætt mjög ákveðið hverra það væri að veita framkvæmdaleyfi og hvort það væri ekki ætíð og alltaf réttur sveitarfélagsins að koma að því að veita framkvæmdaleyfi þó að slík ákvörðun væri háð einhverri annarri stofnun til samþykktar, eins og menn þekkja í skipulagsmálum, deiliskipulag þarfnast samþykkis Skipulagsstofnunar, o.s.frv.

Jú, ég held að geta mætti sveitarstjórna í ýmsum lögum sem snerta verksvið sveitarstjórnarstigsins, og þau eru æðimörg. Það má nefna leik- og grunnskólamál og ýmis önnur mál, skipulagsmál, byggingarmál og heilbrigðismál, sem snerta sveitarstjórnarstigið án þess að þess sé að öllu jöfnu getið í lagatexta. En það er þá okkar sem hér sitjum og erum fyrrverandi sveitarstjórnarmenn að laga það.