139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

vatnalög.

561. mál
[17:33]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held reyndar hvað varðar fyrra umfjöllunarefni hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar, um stjórnsýslu umhverfisráðherra, hafi iðnaðarnefnd einmitt tekið á því og lagt til í breytingartillögunum að fella út 4. mgr. 78. gr., sem fjallaði um stjórnsýsluaðkomu Umhverfisstofnunar og yfirstjórn umhverfisráðherra á þeim málum. En ég tek undir það að þetta er eitt af því sem er óljósast, þ.e. stjórnsýslan, og hvernig að henni er staðið. Orkustofnun hefur þarna stjórnsýsluhlutverk en engu að síður vitum við það báðir — hv. þingmaður hefur langa reynslu af sveitarstjórnarstiginu og veit að þau mál er varða framkvæmdaleyfi, hvort sem um er að ræða vatnsveitu, vatnsvernd, ég tala nú ekki um einhverjar smávirkjanir eða eitthvað slíkt, koma öll inn á borð hjá skipulagsapparati sveitarfélaganna og síðan er oft haft samráði við Skipulagsstofnun. Þegar um stærri hluti er að ræða, heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga og annað, taka menn síðan ákvarðanir og gefa út framkvæmdaleyfi.

Það er mjög mikilvægt að menn átti sig á því hvenær Orkustofnun á að vera þarna inni. Ég vil ganga enn lengra og spyrja: Af hverju á hún að vera þarna inni með framkvæmdaleyfi? Af hverju förum við ekki hina leiðina, að hún hafi hreinlega einhvers konar umsagnaraðild að þessu? Hugsanlega væri hægt að ganga það langt, eins og Umhverfisstofnun getur gert í sambandi við aðkomu að vatnamálum, og benda á að samkvæmt lögum um náttúruvernd sé viðkomandi framkvæmd ekki hæf eða eitthvað slíkt. Orkustofnun gæti nýtt sér það líka. Við umfjöllun sveitarfélagsins mundi sveitarfélagið einfaldlega neita að gefa út framkvæmdaleyfi á viðkomandi framkvæmd eða ekki setja það inn á skipulag. Ég held að það væri á margan hátt eðlileg stjórnsýsla en það þyrfti klárlega að skýra hana.