139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:56]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ólíkt hafast menn að. Ég vil mótmæla því sem fram kom í ræðu hv. þingmanns hvað varðar það að ekkert samráð hafi verið haft við stjórnarandstöðuna í málinu því að óskað var sérstaklega eftir tillögum frá henni. Hér situr fulltrúi Hreyfingarinnar, hv. þm. Þór Saari, sem kom með fjölmargar prýðistillögur inn í vinnslu málsins og mikið og gott tillit var tekið til margra þeirra við breytingar á málinu. Því hafna ég að ekki hafi verið haft samráð við stjórnarandstöðuna í málinu.

Ég vil líka spyrja: Hvar eru tillögur Framsóknarflokksins? Hvar koma þær fram í málinu? Í nefndaráliti hv. þingmanns sem mælt var fyrir áðan komu engar tillögur fram um hvernig bæta mætti stjórnsýsluna. Ekkert um það. Er þingmanninum í raun og veru alvara með að verið sé að búa til eitthvert forsætisráðherraræði í ljósi þeirrar forsögu sem verið hefur í samskiptum framkvæmdarvalds og löggjafarvalds, þegar menn hafa komið með frumvörp um eigin eftirlaun og skammtað sér freklega í eigin vasa hvernig þeir vilja haga eftirlaunum sínum með undantekningum og ég veit ekki hvað og hvað, með tilliti til þeirra tómstunda sem þeir vilja iðka þegar þeir eru komnir á eftirlaun? Er hv. þingmanni í raun og veru alvara með að hér sé verið að færa hlutina til verri vega en nú gilda? Það getur ekki verið. Hvar eru tillögur Framsóknarflokksins sem segir að þær úrbætur sem hér er verið að kynna séu allt of seint fram komnar út af því að þrjú ár eru liðin frá hruni.

Það er afskaplega vel vandað til verka, vitnað er í fjölda skýrslna og úttekta og lagt er fram frumvarp sem fer til vandaðrar umfjöllunar í þinginu og breytingartillögur eru gerðar á. Það er hinn eðlilegi og opni farvegur slíkra mála.