139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

frumvarp um Stjórnarráðið.

[10:42]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Við ræðum á eftir frumvarp um Stjórnarráð Íslands sem oftar en ekki hefur verið kallað frumvarp um að leggja niður hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Það liggur því beinast við að heyra álit hæstv. ráðherra á þessu frumvarpi. Að vísu liggur fyrir að hæstv. ráðherra er andvígur frumvarpinu og greiðir atkvæði gegn því, en á hvaða forsendum tekur hæstv. ráðherra þessa afstöðu? Er það eingöngu út frá eigin stöðu eða er það vegna þess að hæstv. ráðherra telur að frumvarpið vegi að stöðu þingræðisins, feli hæstv. forsætisráðherra of mikið vald? Telur hæstv. ráðherra það hættulegt, óháð því hver er forsætisráðherra hverju sinni, að veita forsætisráðherra það vald sem gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi? Og talar þá kannski hæstv. ráðherra út frá eigin reynslu um það hvernig hægt væri að nota slík ákvæði til að þvinga ráðherra til að fá þá til að breyta um afstöðu í tilteknum málum eða hverfa frá afstöðu?

Einnig væri fróðlegt að heyra hæstv. ráðherra segja okkur frá því hvort hann sé einn um þessa skoðun í sínum þingflokki. Nýtur hann ekki stuðnings nokkurs annars fulltrúa Vinstri grænna? Getur jafnvel verið að einhverjir fulltrúar Vinstri grænna sjái sér hag í því að auka vald hæstv. forsætisráðherra og gera honum betur kleift að koma hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra út úr ríkisstjórn?

Ég geri ráð fyrir að þessi mál hafi verið rædd ítarlega innan Vinstri hreyfingarinnar – græns framboð nú þegar aðeins eru nokkrir dagar í að hæstv. forsætisráðherra ætli að ljúka málinu. Afstaða flokksmanna hlýtur að liggja fyrir og því ítreka ég spurninguna til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra: Stendur hann einn í sínum flokki? Eru menn jafnvel tilbúnir að fórna honum þar eða mun hann fá stuðning úr eigin röðum?