139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[12:25]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þakka hv. þingmanni fyrir ágæta og yfirgripsmikla ræðu. Ég velti fyrir mér eftir ræðuna að hér hefur því æðioft verið haldið fram að flokkur hv. þingmanns standi gegn breytingum þegar … Frú forseti, ég er varla með 40 mínútna andsvar, en ég þakka það ef svo er.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort flokkur hans standi gegn breytingum og einnig hvort í frumvarpinu séu ákveðnir liðir sem bæti stjórnsýsluna og umhverfi framkvæmdarvaldsins. Persónulega er ég á því að hér séu lögð til atriði sem við eigum að taka fagnandi þó svo að ljóst sé að þættir eins og að slíta tengslin eða færa valdið frá Alþingi til framkvæmdarvaldsins hvað ráðuneytin varðar séu ekki af því góða.

Það er vitanlega mikilvægt að þegar svona breytingar eru gerðar sé reynt að ná sem mestri sátt því það ekki þarf annað en kosningar og skipti á meiri hluta í þinginu til þess að aftur verði farið að hræra í þessum málum. Því er mjög mikilvægt að við reynum að komast að því hvort vilji sé almennt til þess í þeim flokkum er sitja nú á Alþingi til að gera einhverjar breytingar. Því er þessari spurningu kastað fram.

Vitnað hefur verið í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og þann starfshóp sem forsætisráðherra skipaði til að koma með tillögur að breytingum um Stjórnarráðið. Því hljótum við einnig að spyrja hvort of lítið mark hafi verið tekið á tillögum þingmannanefndarinnar og meira á tillögum starfshópsins.