139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[12:27]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég rakti í ræðu minni er það ekki svo að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í allsherjarnefnd, ég og hv. þm. Birgir Ármannsson, finnum þessu máli allt til foráttu. Það er, eins og fram kemur í nefndaráliti okkar, margt þarna sem við teljum að kunni að vera til bóta. Við gerum til dæmis ekki athugasemdir við 4. gr. frumvarpsins eða þá 6., og við teljum að það gæti verið til bóta að innan ríkisstjórnarinnar séu haldnar trúnaðarmálabækur og gengið sé lengra í því að skrá samskipti á milli ráðuneyta og stofnana. Það eru fjölmörg atriði þarna sem við teljum að kunni að vera til bóta í stjórnsýslunni og við erum sannarlega hlynntir því að gera breytingar í Stjórnarráðinu sem kunna að verða til bóta. En það kemur ekki til greina af okkar hálfu að samþykkja það sem hér er lagt til, að færa valdið um það hvaða ráðuneyti starfa í landinu, hvernig framkvæmdarvaldið er uppsett og uppbyggt, frá þinginu og til hæstv. forsætisráðherra.

Slíkar hugmyndir eru algjörlega óásættanlegar og uppfylla í engu þær tillögur sem fram koma í skýrslu þingmannanefndar hv. þm. Atla Gíslasonar og í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. En þær koma fram í tillögum starfshóps forsætisráðherrans sjálfs, já, já, þær eru þar, enda eru tillögurnar samþykktar og samdar í forsætisráðuneytinu.

Hvað ætli hefði verið sagt ef fyrrverandi hæstv. forsætisráðherrar, til dæmis Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson, hefðu lagt til að þeim yrðu (Forseti hringir.) færð öll völd varðandi skipulag Stjórnarráðsins? Ég er hræddur um að það (Forseti hringir.) hefði heyrst hljóð úr horni, meðal annars þess sem kallar hér fram í núna.