139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:34]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég óska enn og aftur eftir því að virðulegur forseti láti okkur vita hvað hún hefur í hyggju varðandi lengd þessa fundar. Ég gat ekki látið hjá líða að skoða það betur þegar hv. þm. Mörður Árnason kom hér og býsnaðist eina ferðina enn yfir málþófinu sem hann sagði að hefði staðið um þetta mál. Ég tók það þannig að hann ætti við að málið hefði verið rætt í 200–300 klukkustundir á septemberþinginu — ætli það séu ekki svona þrjár þingvikur með kaffitímum, matartímum, utandagskrárumræðum og öllu því sem við þurfum að hafa til annarra mála, þannig að tímaskyn hans er kannski örlítið brenglað. Ég hef aflað mér upplýsinga um það, þingmanninum til fróðleiks, að 1. og 2. umr. um þetta ágæta mál — 1. umr. fór fram í sumar — hafa samtals tekið minna en 20 klukkustundir, þannig að þingmaðurinn er greinilega að hugsa um (Forseti hringir.) [Kliður í þingsal.] eitthvað allt annað en þetta. [Kliður í þingsal.] Það hvarflar að mér að hann sé (Forseti hringir.) farinn að hugsa um gengisfellingar og ég (Forseti hringir.) bendi honum nú á að taka nokkur núll aftan af.