139. löggjafarþing — 161. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[00:05]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Við reyndum að spyrja hæstv. forseta áðan hvort ætlunin væri að halda þessari umræðu lengi áfram. Það þurfti að halda einar tíu ræður eða þar um bil áður en hæstv. forseti ómakaði sig til að svara með engu svari. Þetta er sú virðing sem hæstv. forseti sýnir þingmönnum í kvöld, að svara nánast út í hött þegar einfaldra spurninga er spurt.

Annars hefur þessi umræða á margan hátt verið mjög fróðleg og mjög upplýsandi. Sérstaklega er þessi umræða upplýsandi fyrir það að hún sýnir okkur svart á hvítu hver áhersluatriði hæstv. ríkisstjórnar eru. Áhersluatriði nr. eitt, tvö og þrjú er að draga úr völdum Alþingis og færa völdin í hendurnar á hæstv. forsætisráðherra. Það er áhersluatriði. Síðan er taktíkin sú að þegar umræðan hefst þá sér maður undir iljarnar á flestum þingmönnum stjórnarliðsins. Þeir hafa búið sér til þá taktík að reyna að bíða þessa umræðu af sér, taka helst ekki þátt í henni nema fáeinir í andsvörum, að öðru leyti er hún látin afskiptalaus. Það er greinilega gert með mikilli velþóknun hæstv. forseta.