139. löggjafarþing — 161. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[01:10]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef auðheyrilega misskilið hv. þingmann en ég kom þó að minnsta kosti að þeirri skoðun minni að mér finnst það fáránlegt sem sumir halda fram að þetta frumvarp sé eitthvað annað en það augljóslega er, sem er endurskoðun á Stjórnarráðinu öllu. Ég vil líka reyna að koma því að á þeim stutta tíma sem ég hef, að ég tel ekki að verið sé að færa mikið vald til framkvæmdarvaldsins. Það er klárlega verið að skilja betur á milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Í breytingartillögu sem hér er lögð til stendur að ráðherra starfi í umboði Alþingis. Það er klár staðfesting á þingræðisreglunni.

Mér finnst að þegar við tölum um aðskilnað framkvæmdarvalds og löggjafarvalds þá séum við að skilja þar á milli. Þá eigum við á löggjafarþinginu líka að passa okkur á því að vera ekki alltaf með puttana í framkvæmdarvaldinu. Við verðum að leyfa framkvæmdarvaldinu að gera það sem þess er og svo gerum við það sem okkar er. Alveg á sama hátt og við viljum ekki að þau séu að krukka of mikið í því sem við erum að gera og (Forseti hringir.) viljum helst losna við þau úr atkvæðagreiðslum og daglegu starfi, (Forseti hringir.) þá eigum við heldur ekki að vera með puttana í öllu sem þau eru að gera.