139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[15:06]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Sá sem hér stendur hélt ræðu í gærkvöldi og hv. þm. Róbert Marshall nýtti þá rétt sinn til að koma í andsvar við þá ræðu. Í þeirri ræðu fjallaði ég meðal annars um störf þingmannanefndarinnar, helstu áherslur þar og m.a. um þann sem veitti henni forustu, hv. þm. Atla Gíslason. Einhverra hluta vegna sá hv. þingmaður ekki ástæðu til að ræða þetta þá.

Af því að þetta með þingmannanefndina er komið til umræðu getur hv. þm. Róbert Marshall kannski upplýst um það hvort ekki sé rétt að fram hafi einmitt komið ósk í allsherjarnefnd um að formaður þingmannanefndarinnar kæmi fyrir nefndina eða þá að þingmannanefndin veitti umsögn um þetta frumvarp til að fjalla um helstu strauma í því og hvort grunnatriðin í frumvarpinu væru fylgjandi því sem fram kæmi í skýrslu þingmannanefndarinnar.

(Forseti (SF): Forseti minnir hv. þingmenn á að þeir eru að tala undir liðnum um fundarstjórn forseta.)