139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:52]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Nei, það er einmitt þetta með vinnubrögðin. Ég fór aðeins yfir það áðan og endurtók það sem rætt var í dag, um muninn á mikilvægum málum og brýnum málum. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir gat ekki svarað andsvari hv. þm. Birgis Ármannssonar þegar hann spurði: Hvaða efnisleg rök eru fyrir því að þetta mál megi ekki bíða þar til á næsta þingi? Svör hennar við því voru: Það er ástæðulaust að láta mál liggja sem búið er að vinna mikið í. (Gripið fram í.) Besta ástæðan fyrir því að láta mál liggja og bíða, eins og hv. þingmaður nefndi — það þarf ekki að bíða mjög lengi, nýtt þing hefst eftir hálfan mánuð — er einmitt sú að þá væri freistandi að reyna að ná um það samstöðu. Það þykir mér mjög góð ástæða. Hún gat ekki svarað því hvaða efnisatriði mundu bera skaða af því ef málið biði. Ég held að það sé ekki málið, það er orðin ákveðin þráhyggja að klára málið á þessu þingi.

Þess vegna biðla ég til hæstv. ríkisstjórnar, og sé að vonbiðill minn, hæstv. utanríkisráðherra, getur flutt hæstv. ríkisstjórninni þau skilaboð, að til að ná samstöðu um málið skulum við að leggja það til hliðar. Klárum hin málin. Komið með það aftur 1. október. Málið gæti verið búið í nóvember. (Gripið fram í.) Allir sáttir. Ég treysti því að hæstv. utanríkisráðherra verði búinn að ganga frá þessu korter yfir níu. (Gripið fram í.)