139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:03]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég hef hlýtt á margar ræður um það mál sem við erum að ræða í dag og höfum rætt undanfarna daga, þ.e. frumvarp til laga um Stjórnarráð Íslands. Það jákvæða sem kemur út úr því að hafa hlýtt á allar þær annars ágætu ræður, þó að þær séu með mismunandi áherslum, er að einn þráður liggur í gegnum þær allar, þ.e. hægt er að finna flöt á því hvernig breyta á Stjórnarráðinu. Það eru allir reiðubúnir að setjast niður og fara í ákveðnar breytingar á Stjórnarráðinu. Það sorglega er að það hefur ekki verið látið reyna á það.

Þetta er náttúrlega ekki eina málið sem við á þingi höfum staðið frammi fyrir þar sem raunverulegur vilji allra, bæði stjórnar en ekki síður stjórnarandstöðu, er að standa einlægt og heiðarlega að málum til að fara í þær breytingar sem við erum vonandi ekki að leggja í til einnar nætur gamans heldur til lengri tíma og til hagsældar fyrir samfélagið. Til að ná nokkurri sátt verðum við öll sem hér störfum að vera framsýn í þá veru að fara ekki út í óþarfabreytingar á þessum grundvallarþáttum í stjórnkerfi okkar. Auðvitað er Stjórnarráðið lykilleikandinn í því öllu ásamt að sjálfsögðu Alþingi sem má eiginlega segja að sé æðstiprestur yfir öllu því sem tengist þrískiptingu ríkisvaldsins.

Að mínu mati er ljóst að verið er að skírskota með þessum breytingum til rannsóknarnefndar Alþingis m.a. og til hinnar svonefndu þingmannanefndar. Ég sé þá skírskotun ekki í þessu frumvarpi eins og það lítur út með ákvæðinu sem er einna umdeildast, þ.e. í 2. gr. um valdaframsal til forsætisráðherra þannig að forsætisráðherra einn og sér geti ákveðið hversu mörg ráðuneytin verða. Reyndar hafa breytingarnar í meðförum nefndarinnar verið eiginlega á verri veg hvað það varðar að vald forsætisráðherra virðist verða allt að því takmarkalaust til að skipa ráðuneyti. Ég sé ekki hvernig hægt er að vísa til rannsóknarnefndar Alþingis eða þingmannanefndarinnar því að rauði þráðurinn í málflutningi þeirra nefnda er sá að efla eigi Alþingi, sjálfstæði Alþingis. Að sjálfsögðu eigum við að geta rætt hér ákveðna hluti eins og þær breytingar sem eiga sér af og til stað í Stjórnarráðinu.

Stjórnarráðinu hefur verið breytt þrisvar í tíð þessarar ríkisstjórnar og það hefur m.a. verið rætt hér. Því var líka breytt 2007 í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og þá voru þær breytingar eðlilega ræddar hér. Ég vil taka undir það sem núverandi hæstv. fjármálaráðherra sagði við þær umræður, að um slíkar breytingar þyrfti að ná tiltölulega víðtækri sátt til þess að menn skildu eðli breytinganna, markmið þeirra og þörf til þess að stuðla að því að það yrði meiri skilvirkni og aukið gegnsæi. Ég sé ekki að það frumvarp sem við erum að ræða stuðli að því.

Ég vil þó taka fram að ákveðin atriði í frumvarpinu eru, svo að ég leyfi mér að sletta, frú forseti, svona „selvfølgeligheder“, sjálfsagt mál að taka inn. Sumt af því er nú þegar í gangi, ekki nema eitthvað hafi breyst frá því sem áður var, eins og það hvernig fundargerðir skuli staðfestar. Ég held að margt sem kemur fram í 7. gr. sé ágætt, líka í 8. gr. og 9. gr. Það er eðlilegt að forsætisráðherra stýri fundum þeirra ráðherranefnda sem eru skipaðar til að fjalla um einstök mál, og það þarf oft að gera það, eða forsætisráðherra ákveði hver stýri þeim. Allt eru þetta sjálfsögð formsatriði, ekkert að því að festa þau í lög, en það sem við stöldrum við er 2. gr. Ég skil ekki af hverju menn hafa ekki einfaldlega tekið hana út eða lagt hana til hliðar til að greiða götu málsins alls og þá væri hægt að ræða aðra þætti þess. Andstaða mín við þetta mál byggist fyrst og fremst á þeirri grein. Ég tel þetta vera vonda breytingu, ekki bara óþarfa.

Um leið og það er sagt vil ég líka undirstrika að með andstöðu minni gagnvart þessu frumvarpi lýsi ég ekki yfir stuðningi við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Mín andstaða er ekki samasemmerki við það. (Gripið fram í.) Það eru samt skiljanlegar vangaveltur sem sá ráðherra hefur sett fram varðandi breytingar á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Þær röksemdir sem hann hefur haft uppi varðandi stórt atvinnuvegaráðuneyti voru líka settar fram þegar við sameinuðum sjávarútvegsráðuneytið og landbúnaðarráðuneytið. Það er ekkert að því að menn ræði sameiningu atvinnuvegaráðuneyta en ekki í þá veru sem ríkisstjórnin hefur verið að tala um, þ.e. að auðlinda- og umhverfismálin fari þá eitthvert allt annað.

Ég held að við náum ekki lengra með svona mál og svona pælingar sem allir þingmenn eru reiðubúnir að taka þátt í héðan úr ræðustóli heldur verðum við fyrst og fremst að setjast niður saman og reyna að finna ákveðna fleti sem hægt er að sameinast um í málinu. Þetta er ekki mál sem ég fyrir mína parta, og ég held að ég geti talað fyrir hönd allrar stjórnarandstöðunnar, viljum klóra augun út úr hvert öðru út af. En þetta er mál sem við segjum stopp við af því að það ógnar formfestu og sjálfstæði þingsins og það er ekki eðlilegt að afgreiða málið á þingi með þeim hætti sem ríkisstjórnin vill. Þess vegna verðum við að stoppa það og þess vegna verðum við að fara fram á að ríkisstjórnin fari málefnalega yfir þetta mál og reyni að taka út helstu annmarka þess sem hafa svo ágætlega verið reifaðir í ræðum annarra þingmanna sem hafa talað á undan mér.

Ég velti fyrir mér vinnulaginu, en málið snýst kannski líka um allt vinnulagið í kringum frumvarpið. Menn reyna að skýla sér á bak við rannsóknarnefnd Alþingis, sem stenst ekki. Menn eru að reyna að skýla sér á bak við þingmannanefndina, það stenst heldur ekki að mínu mati. Það er eins og alltaf sé sami tónninn sleginn í málum sem þarf að knýja í gegn að mati hæstv. forsætisráðherra. Þekkjum við ekki reynsluna frá vordögum 2009 þegar forsætisráðherra vildi knýja fram ákveðnar breytingar á stjórnarskránni algjörlega og í fyrsta sinn í sögunni án samráðs allra flokka? Þetta er engin nýlunda. Það var t.d. ágætt vinnulag viðhaft þegar menn í ríkisstjórninni ætluðu sér að fara út í breytingar á sjávarútvegsmálum. Þá var skipuð endurskoðunarnefnd út af sjávarútvegsmálum og farið yfir þau. Fulltrúar allra flokka komust að niðurstöðu. Þeirri niðurstöðu var síðan ekki fylgt eftir af því að hún var ekki þóknanleg öllum ráðherrum innan ríkisstjórnar. Það var miður því að ég tel og taldi það vinnulag til fyrirmyndar. Það hvernig við ætluðum að nálgast breytingarnar á sjávarútveginum þar sem við verðum að fara varfærnislega í allar breytingar sem snerta grunnatvinnuvegi þjóðarinnar tel ég að hafi verið vel unnið og vel ígrundað, en það sem var sorglegt við það mál, eins og ég gat um, var að ekki var farið eftir því og er það mál enn upp í loft. Á meðan er ekki fjárfest í sjávarútveginum, innan sjávarútvegsins hefur verið fjárfestingarfrost eins og menn vita sem fylgjast með þeim tölum sem þaðan hafa komið undanfarin rúm tvö ár. Það er vegna stefnu ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum. Það er miður.

Ég hef sagt að ýmis ákvæði í frumvarpinu séu sjálfsögð og ekkert óeðlilegt að þau séu í frumvarpi sem þessu. Það á hins vegar ekki við um breytingarnar í 2. gr. og þær breytingar sem komu frá allsherjarnefnd. Stjórnarskráin okkar, eins og segir í greinargerð í frumvarpinu á bls. 7, takmarkar réttilega svigrúm okkar hér á þingi, svigrúm löggjafans, í ákveðnum atriðum þegar kemur að lagasetningu um Stjórnarráð Íslands. Það segir okkur að við eigum að fara varlega í allar slíkar breytingar. Það var kallað eftir formfestu hjá rannsóknarnefnd Alþingis og þingmannanefndinni en í rauninni er verið að fara út í algjört formleysi af því að Alþingi á ekki að kom að þessu. Formfesta er að mínu mati ekki mikil þegar það er háð einum einstaklingi, sem situr í stóli forsætisráðherra hverju sinni, hverjir verða ráðherrar og ekki bara það heldur hvaða ráðuneyti eru uppi hverju sinni. Breytingarnar sem voru m.a. gerðar innan nefndarinnar eru þær að nú er hægt að skipta upp ráðuneytum. Það kom fram í andsvari við einn hv. þingmann ríkisstjórnarinnar að með þessum breytingum yrði ekki eingöngu hægt, eins og var lagt upp með, að skipta ráðuneytum heldur yrði hægt að skipta ráðuneytum þannig að við ættum hugsanlega eftir að sjá marga ráðherra koma úr mennta- og menningarmálaráðuneytinu, við gætum séð marga ráðherra koma út frá utanríkisráðuneytinu, þróunarmálaráðherra o.s.frv. Ég tel reyndar að ekki veiti af sérstökum jafnréttisráðherra miðað við hvernig forsætisráðherra hefur hagað sér í jafnréttismálum og ákveðnum málum tengdum ráðningum innan forsætisráðuneytisins. Það væri svo sem þörf á slíkum ráðherra að þessum breytingum gengnum, en það er útúrdúr.

Ég ítreka aftur fyrirvara mína varðandi 2. gr. Það er verið að fara með valdið, talandi um að óska eftir meiri formfestu af hálfu rannsóknarnefndar Alþingis, og fara út í minni formfestu því að ákveðin formfesta fylgir því að hafa skýran ramma í lögum. Það er ekki svo að lagaramminn í dag veiti ekkert svigrúm. Við höfum sameinað ráðuneyti og farið út í alls konar breytingar án þess að það hafi verið neitt tiltökumál. Ég tel að það skipti miklu máli að þessi rammi liggi fyrir í löggjöfinni sjálfri og menn geti stuðst við hana.

Ég tel það heldur ekki skaða að þegar menn ætla sér út í breytingar á Stjórnarráðinu, eins og gerðist 2007, að málið komi þá til þingsins. Hvað er að því að lýðræðislega kjörnir fulltrúar ræði það sín á milli hvert við stefnum með Stjórnarráðið? Það er ekkert að því. Það koma einmitt heilbrigð sjónarmið fram á þingi og menn geta komið með ágætisathugasemdir við umfjöllun slíkra mála. Það hefur iðulega gerst í gegnum tíðina. Ég held að það sé betra en skilaboð forsætisráðherra, eins og mér finnst þau einfaldlega vera. Hún segir við þingið: Kæru vinir, það er rosalega gaman að koma hingað af og til og spjalla við ykkur um hin og þessi mál — sem hún gerir reyndar ekki allt of mikið af, en látum það liggja milli hluta — en nú ætla ég að hætta að tala um breytingar á Stjórnarráðinu við löggjafarsamkomuna. Það er það sem er verið að segja í þessu máli. Forsætisráðherra eða framkvæmdarvaldið vill ekki lengur ræða um umgjörðina eins og hún er við löggjafarvaldið. Þetta er vond breyting og hún gengur þvert á það sem við höfum sammælst um hér á þingi sem er að efla þingið og styrkja. Það er ekki verið að gera það með þessari breytingu, síður en svo.

Breytingarnar sem gerðar voru í allsherjarnefnd finnst mér vera nokkuð athyglisverðar. Svo að ég undirstriki að það er ekki allt alslæmt í frumvarpinu þá tók ég eftir því að meiri hluti nefndarinnar talar um málstefnu og fagna ég því sérstaklega að menn átti sig á því sem kemur fram í málstefnunni, sem að grunninum til kom frá íslenskri málnefnd og var síðan samþykkt á Alþingi. Ég held að það sé gott að menn séu meðvitaðir um mikilvægi íslenskrar tungu innan Stjórnarráðsins. Það er eitthvað sem manni finnst vera sjálfsagt en allt í lagi að undirstrika mikilvægi íslenskunnar.

Ég reyndar hnýt um — bara svo að það sé sagt — það sem meiri hlutinn segir varðandi ábendingar Jafnréttisstofu um kynjakvóta í ríkisstjórn. Ég tek undir að það er ekki raunhæft að krefjast kynjakvóta í ríkisstjórninni en auðvitað er farsælt ef allir flokkar á hvaða tíma sem er reyna að miða við jafnt kynjahlutfall í ríkisstjórn. Um leið er ekki síður mikilvægt að ráðherrar í ríkisstjórn bæði fyrr og nú átti sig á mikilvægi jafnréttislaga. Fyrsta konan sem hefur gegnt stöðu forsætisráðherra hefur gerst brotleg við jafnréttislög. Mér finnst það miður. Mér finnast það vond skilaboð, ég hefði kosið að svo hefði ekki orðið. Það liggur skýrt fyrir að forsætisráðherra fyrstu vinstri stjórnarinnar gerðist brotlegur við jafnréttislög. Sama hve góður tónninn hefur verið í gegnum tíðina hafa menn þegar þeir komast til valda ekki nýtt sér valdið með þeim hætti sem þeir hafa talað áður en þeir tóku til starfa sem ráðherrar. Þetta var kannski útúrdúr en nauðsynlegt engu að síður að það komi fram hér.

Mér finnst merkilegt af hálfu hv. allsherjarnefndar — mér sýndist formaður hv. allsherjarnefndar gefa vísbendingu um andsvar hér á eftir — af hverju nefndarmenn fóru ekki út í að takmarka fjölda ráðuneyta. Í nefndarálitinu segir, með leyfi forseta:

„Í samræmi við framangreint er það því tillaga meiri hlutans að framangreind ákvæði frumvarpsins um að ráðuneyti í Stjórnarráði Íslands skuli ekki vera fleiri en tíu og ákvæðið um að hvert ráðuneyti skuli lagt óskipt til eins og sama ráðherra verði felld brott.“

Ég held að hér sé verið að auka valdsvið forsætisráðherra og ganga enn frekar gegn þinginu. Mér finnst þetta vond breyting, var nú greinin vond fyrir en það gerir hana enn þá verri að forsætisráðherra geti ákveðið hvort ráðuneytin verði fimm eða 15 eða 50, allt eftir því hvað margir innan flokka viðkomandi banka á dyrnar til að verða ráðherrar. Það er ekkert aðhald í því. Það er ekkert taumhald á hvernig við sjáum Stjórnarráðið fyrir okkur fyrir utan það að skýri ramminn um Stjórnarráðið verður ekki lengur til staðar. Það er alveg búið að koma skýrt fram af hálfu stjórnarliða að það verði hægt að skipta upp ráðuneytum eins og þau eru núna eftir því sem forsætisráðherra telur þurfa hverju sinni. Ég held að það sé ekki mikil hætta á því að málefni Kínverjans eða Evrópusambandsins hafi nokkuð með það að gera. Ég held að menn hafi eða ég vona að menn hafi meiri ást og elsku á íslensku stjórnarfari en svo að þeir fari að róta þannig í Stjórnarráðinu og því hvernig ráðuneytum skuli skipt upp eftir málefnum dagsins. Ég trúi því ekki að öllu óreyndu.

Ég vil geta þess að þegar ég var menntamálaráðherra upplifði ég það oft hjá öðrum Norðurlandaþjóðum, sem hafa verið taldar vegvísir í þessu, að hitta þrjá og jafnvel fjóra kollega á fundum norrænna ráðherra, ekki bara embættismenn heldur oft og tíðum stjórnmálamenn sem gegndu stöðu ráðherra, eins og menntamálaráðherra og menningarráðherra í Noregi, Svíþjóð og ekki síður Danmörku, stundum fóru þeir niður í tvo og stundum upp í fjóra. Það fer allt eftir því hvernig forsætisráðherra hverju sinni telur best að deila út verkefnum og þau deilast oft eftir því hvaða persónur og leikendur er um að ræða hverju sinni. Í Noregi var það t.d. þannig, líka í Svíþjóð og Danmörku. Ég tel ekki gott að menn raði hér niður ráðuneytum eftir því hvaða einstaklingar eiga hlut að máli sem kunna hugsanlega að verða ráðherrar. Það er ekki gegnsæi í því og engin formfesta. Ég tel það því farsælla að þingið komi að þessu máli, ákveði rammann og síðan hafi menn svigrúm eins og er í dag til að ákveða verkaskiptinguna sín á milli. Þetta er ósköp einfalt eins og það er nú þó að það megi að sjálfsögðu ræða frekari sameiningu ráðuneyta eða uppskiptingu, það er ekkert óeðlilegt að menn ræði það, en ekki þannig að þetta vald eitt og sér verði hjá forsætisráðherra. Ég vil að þessi umræða fari fram hér innan dyra. Ég vil ekki að hún verði í formi hálftímautandagskrárumræðu þar sem hver þingmaður fær tvær mínútur til að tjá sig um það hvernig Stjórnarráðið ætti að vera til næstu ára. Ég tel það engan veginn Alþingi til sóma.

Ég vil einnig draga fram það sem er í frumvarpinu um aðstoðarmenn og þá fjölgun sem á sér stað á aðstoðarmönnum. Ég vil taka það skýrt fram að ég hef mikinn skilning á því að ráðherrar þurfi að hafa aðstoðarmenn eða ráðgjafa. Ég held að það sé rétt en það er ein birtingarmynd af því sem ég tel miður að menn hafi ekki sest niður og farið í gegnum það hvernig við viljum sjá hina pólitísku aðkomu í ráðuneytum hverju sinni. Ráðuneytin eru oftar en ekki vel mönnuð. Ég þekki það frá menntamálaráðuneytinu að þar er faglega séð mjög öflugt starfsfólk, ráðuneytið er fjölmennt og stórt og ekkert óeðlilegt við það. Það er eitt allra stærsta ráðuneytið með umfangsmestu málaflokkana. Það var 80 manna ráðuneyti en er víst orðið eitthvað aðeins stærra. Síðan kemur einn ráðherra og einn pólitískur starfsmaður, hugsanlega tveir með aðstoðarmanni. Ég held að við hefðum átt að taka meiri umræðu um það. Ég held að það eigi rétt á sér að aðkoma stjórnmálamanna hinnar pólitísku forustu verði sterkari en nú er og hverfi síðan með ráðherrunum hverju sinni. Um það held ég að við hefðum getað náð samkomulagi ef menn hefðu bara reynt að tala sig aðeins í gegnum það. Ég held alla vega að menn eigi að huga betur að því að styrkja hið pólitíska vald samhliða því faglega en hið pólitíska vald getur að sjálfsögðu ekki þrifist án faglegrar nálgunar, menn endast ekki lengi í pólitík án slíks. Ég held að það væri gott fyrir lýðræðið og lýðræðisöflin ef pólitískir starfsmenn ráðuneyta væru með sterkara bakland en þeir hafa nú innan ráðuneytanna og það segi ég með fullri virðingu fyrir þeim sem þar starfa, það er ekki spurning. Ég held alla vega að það hefðu verið skemmtilegar pælingar hvernig við sæjum stjórnmálamenn fara inn í ráðuneytin og þá út úr þeim aftur, ekki þannig að þeir ílengdust þar von úr viti. Hins vegar má efast um það sem kemur fram hér varðandi aðstoðarmennina og þann gríðarlega kostnað í tengslum við þá.

Ef að líkum lætur og þetta mál verður samþykkt, eins og réttilega kemur fram í umsögn fjárlagaskrifstofunnar, á þessi heimild varðandi aðstoðarmenn ekki að taka gildi fyrr en að afstöðnum næstu alþingiskosningum vegna þröngrar stöðu í ríkisfjármálum. Það er rétt, hún er mjög þröng. Það verður forvitnilegt að sjá hvernig ríkisstjórnin mun forgangsraða ríkisfjármálum þegar fjárlagafrumvarp verður lagt fram lögum samkvæmt 1. október. Þess vegna finnst mér afar sérstakt og mjög gagnrýnisvert að aðstoðarmenn og nákvæmlega þessi atriði séu sett í forgang þegar staðan er svo þröng.

Ég hefði gjarnan viljað sjá jafnafgerandi forustu af hálfu ekki bara forsætisráðherra heldur fyrst og fremst forseta þingsins í að styrkja þingið með jafnafgerandi hætti og ríkisstjórnin er í rauninni að gera með framkvæmdarvaldið. Ég hefði viljað sjá okkur sem erum hér inni sammælast um að efla og styrkja þingið enn frekar en hrökkva ekki alltaf í kút þegar á reynir af því að það er svo erfitt út á við að styrkja þingið því að það kostar og þá vilja menn ekki standa við það þar sem það eru alltaf einhverjir sem gagnrýna slíkt. En það er enginn bilbugur á mönnum að styrkja framkvæmdarvaldið. Það er hægt að taka undir það að vissu leyti en á þessum tímum tel ég mjög varhugavert að fara þá leið sem ríkisstjórnin er að fara, að fjölga aðstoðarmönnum og ráðgjöfum jafnvel allt upp í 23 sem hugsanlega mun kosta 130 milljónir ef allt kemur til framkvæmda. Um leið og við segjum að hið pólitíska vald geti orðið sterkara innan framkvæmdarvaldsins verðum við að horfa í kostnaðinn og það er ekki verið að gera. Einu sinni sem oftar er ríkisstjórnin ekki að forgangsraða fjármunum á erfiðum tímum, alla vega er ég ósammála slíkri forgangsröðun í fjármálum þegar menn horfa upp á það sem er að gerast innan heilbrigðisstofnana víðs vegar um landið.

Ég vil taka undir það sem segir í umsögn Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins og ég ítreka að mér finnst synd að við látum enn og aftur fram hjá okkur fara tækifæri til að ná samstöðu og einingu um breytingar sem við erum sammála um að þarf að fara í en þurfum að gefa okkur meiri tíma í. Þess vegna segir réttilega í umsögn Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins að slík allsherjarbreyting á stjórnarráðinu sé langtímaverkefni.

Ég undirstrika að það vantar úttekt á kostnaði sameiningar og breytinga og það vantar framtíðaráætlanir um hagkvæmni þeirra breytinga sem ríkisstjórnin er að beita sér fyrir.

Af því að ég tala um ríkisstjórnina liggur fyrir að ekki eru allir ráðherrar í ríkisstjórninni sammála þessu. Hæstv. innanríkisráðherra Ögmundur Jónasson hefur haft mikla fyrirvara við þetta frumvarp svo að ég tali ekki um hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, en eins og ég gat um áðan er andstaða hans við frumvarpið öllum ljós og hefur meðal annars komið fram í fyrirspurnatímum. Þá veltir maður fyrir sér: Er meiri hluti fyrir frumvarpinu? Mér sýnist svo vera og það er einfaldlega búið að — ég ætla ekki að segja kaupa en það er búið að fá menn til að samþykkja frumvarpið gegn því að ákveðnar breytingar verði gerðar að þeirra kröfu. Ég er að tala um þingmenn Hreyfingarinnar sem munu væntanlega styðja frumvarpið ef sú breyting verður samþykkt að ríkisstjórnarfundir verði hljóðritaðir og afrit af þeim geymt í vörslu Þjóðskjalasafns og hljóðritanir frá ríkisstjórnarfundum gerðar opinberar að 30 árum liðnum. Það stendur í áliti meiri hlutans. Þetta var það sem þurfti til að fá Hreyfinguna með málinu. Mér finnst sérstakt að Hreyfingin skuli samþykkja svo víðtækt valdaframsal frá þingi til framkvæmdarvaldsins. Þetta er að mínu mati breyting sem er ekki í samræmi við þá kröfu að styrkja þingið, síður en svo. Það er verið að veikja það.

Það má alveg velta fyrir sér hvort hljóðrita eigi ríkisstjórnarfundi en þá verða menn að átta sig á því að það er ekkert ólíklegt að eðli ríkisstjórnarfunda breytist. Menn mega gera ráð fyrir því. Þá er heldur ekkert óeðlilegt að menn álykti sem svo að það verði hugsanlega búið að taka ákvarðanir áður en farið er á ríkisstjórnarfund. Ég er hrædd um að svo verði en ætla um leið að segja að ef menn vilja halda fast í þá kröfu geta menn gert það, en ég held að þetta sé ekki til þess fallið að auka gegnsæi í stjórnsýslunni eða að stuðla að þeirri formfestu sem er krafist í dag bæði gagnvart ríkisstjórninni en ekki síður stjórnsýslunni allri. Ég hef því alla þá fyrirvara á þessari breytingu og mér skilst einmitt að þingmenn stjórnarmeirihlutans, þ.e. hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, hafi einmitt haft fyrirvara á þessu ákvæði.

Menn hafa því farið út í alls konar tilfæringar með tiltölulega skömmum fyrirvara. Þetta hefur til að mynda ekkert verið rætt víðar en í nefndinni. Þetta er hluti af því sem ég hefði talið þarft að ræða á breiðari vettvangi með það í huga að þetta er langtímaverkefni eins og segir réttilega í umsögn Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins.

Hvað höfum við sjálfstæðismenn sagt í þessu máli? Svo að ég reyni að ramma það inn að einhverju leyti þá höfum við alls ekki sett okkur upp á móti breytingum á Stjórnarráðinu en sú leið sem er verið að fara er ekki fýsileg af því að hún dregur úr valdi og aðkomu þingsins. Ég vil leyfa mér að vitna í það sem segir í nefndaráliti okkar sem tilheyrum 1. minni hluta í allsherjarnefnd. Hv. þingmenn Sigurður Kári Kristjánsson og Birgir Ármannsson, sem er framsögumaður, hafa haft vegsemd og vanda af því að fara yfir málið og segja réttilega og ég held að það sé kjarninn af okkar hálfu, með leyfi forseta:

„Að mati fulltrúa Sjálfstæðisflokksins hníga flest rök gegn þeirri breytingu sem nú er lögð til. Í fyrsta lagi er um að ræða tilflutning valds frá Alþingi til ríkisstjórnarinnar og þá einkum forsætisráðherra. Það hlýtur að teljast meiri háttar ákvörðun um fyrirkomulag æðstu stjórnar ríkisins hvaða ráðuneyti eru starfandi á hverjum tíma. Í slíkri ákvörðun getur falist mikilvæg pólitísk stefnumörkun og afleiðingarnar geta verið miklar og birst með margvíslegu móti. Eðlilegt er að ákvörðunarvaldið í þessum efnum sé hjá þinginu alveg eins og það er óumdeilt hlutverk þingsins að taka ákvarðanir um stofnun eða aflagningu allra annarra stofnana ríkisins. Sá valdatilflutningur sem felst í frumvarpinu er í miklu ósamræmi við þau viðhorf sem uppi hafa verið í samfélaginu á síðustu árum um að efla beri löggjafarvaldið og Alþingi sem stofnun og draga að sama skapi úr áhrifum framkvæmdarvaldsins og ríkisstjórnarinnar. Slík viðhorf birtast raunar víða í skýrslum rannsóknarnefndar Alþingis og þingmannanefndarinnar og fer frumvarpið að þessu leyti þvert gegn sjónarmiðum sem þar koma fram.“

Ég vil ítreka aftur reynslu mína annars staðar á Norðurlöndum. Ég er ekki viss um að allir hafi verið sáttir við þær breytingar sem var sífellt verið að gera á ráðuneytum með það í huga hverjir ættu að fara inn í ráðuneytin hverju sinni. Það var ekki sú festa sem við erum að leita eftir. Ef menn ætla að líta til annarra Norðurlandaþjóða verða menn að horfa til einhverra annarra þátta en þessa þáttar varðandi breytingu á Stjórnarráðinu, fyrir utan að þar er önnur reynsla og minnihlutastjórnir mun algengari sem hefur líka áhrif á það hvernig framkvæmdarvaldið skiptist niður.

Síðan segir í nefndaráliti okkar sjálfstæðismanna, með leyfi forseta:

„Fyrir utan tilflutning valds frá þingi til ríkisstjórnar má benda á að breytingin sem felst í frumvarpinu eykur hættuna á lausung og jafnvel geðþóttaákvörðunum í sambandi við skipan ráðuneyta.“

Með fullri virðingu fyrir ríkisstjórninni verður að segjast eins og er að sú tilfinning kemur oft og tíðum upp þegar menn hugsa til ríkisstjórnarinnar að það séu oftar en ekki geðþóttaákvarðanir sem teknar eru eða alla vega geðþóttaskoðanir hverju sinni á hinum og þessum málum. Ég get tekið Magmamálið sem dæmi. Það er ágætt dæmi um geðþóttaákvörðun á grundvelli skoðana hæstv. forsætisráðherra, sem fannst Magmamálið vera orðið óþægilegt, samstarfsflokkurinn í ríkisstjórn orðinn frekar órólegur og pirraður og það þurfti einhvern veginn að sljákka í því máli öllu og þá var bara hægt að slengja fram: Já, það er hugsanlega hægt að þjóðnýta þetta allt saman, HS Orku og fleiri tengd fyrirtæki. Ég held að sú setning hafi skaðað Ísland alveg óskaplega og lýsi viðhorfum ríkisstjórnarinnar til fjárfestinga, annars vegar eru skiptar skoðanir sem tengjast uppbyggingu í atvinnulífinu og fjárfestingum almennt, hins vegar og ekki síður getur forsætisráðherra komið fram með jafnafdrifaríka skoðun og þá að þjóðnýta eigi hugsanlega hér ákveðin fyrirtæki. Þetta er alvarlegra en margir hverjir hafa áttað sig á. Það er þetta sem maður óttast að geti gerst varðandi Stjórnarráðið, að til þess að sljákka í samstarfsflokknum eða sætta samstarfsflokkinn eða reyna að leysa ákveðin málefni sé bara stokkað upp í Stjórnarráðinu, bara sisvona. — Það er gott að vita að framsóknarmenn eins og fleiri kunna að smella fingrum. [Hlátur í þingsal.]

Svona er þetta bara og við þekkjum það, við sem erum í stjórnarandstöðunni, bæði sjálfstæðismenn og framsóknarmenn. Við sjáum að það er mjög líklegt að hún smelli bara fingrum hverju sinni og breyti kerfinu öllu þannig að það verði ekki lengur gegnsætt heldur ógegnsætt, allt eftir því hvernig ráðherrar fara fram úr rúminu þann daginn. Það er hægt að kasta þessu fram í hálfkæringi hér síðla kvölds þegar komið er undir miðnætti en þetta er engu að síður fúlasta alvara. Með þessum breytingum er verið að veita forsætisráðherra heimild til að smella fingrum og breyta Stjórnarráðinu, breyta ráðuneytunum og fleiru í samræmi við það hvernig viðrar við ríkisstjórnarborðið hverju sinni, hverja þurfi að sætta, hverja þurfi að tala til o.s.frv. Þetta býður upp á að Stjórnarráðinu verði beitt í einhverjum pólitískum leikjum og það er vont.

Ef það er ætlunin vil ég fá þá umræðu inn á þing. Þá vil ég ekki að það sé bara lokað — lok, lok og læs — og sagt við þingið: Nei, við þurfum ekkert að ræða þessar breytingar við ykkur. Það er ekki góð leið, eins og ég talaði um áðan, og ekki hægt að bjóða þingmönnum upp á að slíkt verði síðan hægt að ræða í stuttri utandagskrárumræðu, hálftímautandagskrárumræðu um það hvert ríkisstjórnin er að fara með skipulagi sínu, formfestu og stjórnskipan.

Síðan segir í nefndaráliti okkar sjálfstæðismanna, nokkuð ég held að margir átti sig ekki á miðað við þær fáu ræður sem stjórnarþingmenn fluttu í umræðum um þetta mál og ég hlustaði á, með leyfi forseta:

„Vert er að benda á að núgildandi fyrirkomulag kemur á engan hátt í veg fyrir að unnt sé að breyta skipan ráðuneyta, stofna ný eða leggja önnur niður. Skilyrði þess að slíkar breytingar nái fram að ganga eru a) að fyrir því sé meiri hluti á Alþingi,“ — ég skil vel að ríkisstjórnin sé hrædd um að hafa ekki alltaf meiri hluta hverju sinni þannig að það er kannski þess vegna sem hún er að taka þetta allt saman til sín. Það er svolítið þreytandi að þurfa stundum að semja við Hreyfinguna, stundum við einn úr Vinstri grænum og annan úr Samfylkingunni því að allir hafa þeir núna mikið vald með eins manns meiri hluta — en alla vega: „b) að frumvörp þar að lútandi séu afgreidd eftir þeim formreglum sem þingsköp gera ráð fyrir og eiga að stuðla að vandaðri málsmeðferð“ — þingið hefur nefnilega bætt sig í allri málsmeðferð. Það er verið að efla starfið á þingi, bæði með öflugra nefndastarfi og ýmsu öðru, m.a. nýjum þingsköpum — „og c) að fram fari sú opna og lýðræðislega umræða sem allir eru sammála um að hafa eigi í heiðri við afgreiðslu þingmála.“

Það er þetta sem við sjálfstæðismenn viljum. Við segjum: Það er vel hægt að gera ýmsar breytingar á Stjórnarráðinu en leyfum þinginu að taka þátt í að breyta því, leyfum þinginu að ræða opinskátt um það hvert stefnir varðandi skipanina innan framkvæmdarvaldsins. Gerum það þannig að allir taki þátt í því en gerum það ekki þannig að það séu bara nokkrir ráðherrar, aðallega einn, sem véli um það hvernig framkvæmdarvaldið er byggt upp hverju sinni. Við höfum ekki efni á slíkum vinnubrögðum. Reynum nú einu sinni að horfa á svona breytingar til lengri tíma. Þetta er ekki eitthvert eitt dægurmál sem ríkisstjórnin getur leyft sér að keyra í gegn. Þetta skiptir máli fyrir alla þjóðina (Forseti hringir.) til lengri tíma. Hægjum aðeins á okkur, tölum meira saman, hvílum þetta mál. (Gripið fram í: Rétt.)