139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

lengd þingfundar.

[15:13]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vissi ekki að samkvæmt þingsköpum mætti koma tvisvar upp í atkvæðaskýringu, en nú hefur hæstv. forsætisráðherra brotið hér (Forseti hringir.) blað í því.

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill vekja athygli hv. þingmanns á því að hann er að ræða um atkvæðagreiðsluna en ekki gefa atkvæðaskýringar.)

Já, ég er að ræða um atkvæðagreiðsluna. Það er rétt, frú forseti. Það er einkennilegt að hæstv. forsætisráðherra geti komið hingað með efnislegar umræður og ásakanir á stjórnarandstöðuna varðandi þau tilboð sem hún hefur lagt fram á lokuðum fundum með formönnum flokkanna. En það er ágætt að svo sé. Í lokin missti hæstv. forsætisráðherra að sjálfsögðu stjórn á skapi sínu eins og venjulega þegar komið er út í hornið [Háreysti í þingsal.] sem Samfylkingin er í, talandi um hverjir bæru ábyrgð á hruninu. Ég minni þingheim og landsmenn alla á það einu sinni enn að Samfylkingin sat í hrunstjórninni og hefur setið rúm fjögur ár í ríkisstjórn.