139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:16]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Ég vil benda hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur á að ég er ekki komin hér upp til að stunda málþóf. Ég er komin hingað, frú forseti, til að reyna að leiða hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni það fyrir sjónir að það er ekki eins og við séum hér að ræða frumvarp hæstv. forsætisráðherra í 1. umr. Við erum að ræða málið í 2. umr. með þeim breytingartillögum sem hv. allsherjarnefnd hefur lagt fyrir þingið. Það mál sem hér er á dagskrá er lagt inn af hv. allsherjarnefnd. Mér, sem varaformaður þeirrar nefndar og þátttakandi í umræðum og gerð breytingartillagna í þessu nefndarstarfi, finnst fullmikil lítilsvirðing fólgin í orðum hv. þingmanns á störfum okkar nefndarmanna þegar hann fullyrðir að þetta sé bara eitthvað sem forsætisráðherra sé að leggja hér fram og eigi að draga út. Þetta er komið frá hv. allsherjarnefnd, þangað vísaði Alþingi málinu og hingað er það komið aftur frá nefndinni.