139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:54]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni og er eitt af því sem hefur verið gagnrýnt mjög við þetta frumvarp. Það eru ekki einungis málefni sem tengjast Evrópusambandinu. Við getum tekið málefni sem hefur verið ágreiningur um, til að mynda kaup jarðarinnar Grímsstaðir á Fjöllum. Hvernig færi með þá ákvörðun þar sem hæstv. innanríkisráðherra ber ábyrgð á þeim málaflokki? Ef hæstv. forsætisráðherra er honum andsnúinn, getur hún þá tekið þennan málaflokk undan? Er hægt að gera þetta í fleiri málum? Það eina sem virðist hamla þessu er að ríkisstjórnin verður að njóta áfram meirihlutastuðnings á Alþingi.

Það er gríðarlegt áhyggjuefni að við skulum vera að stíga þetta skref. Þetta mun leiða til þess að allir ráðherrar sitji í skjóli forsætisráðherra og forsætisráðherra verði eins konar yfirmaður með litla þjóna í kringum sig sem (Forseti hringir.) standa og sitja eins og hann vill.