139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:01]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég sé ekki betur en finnska leiðin sé við lýði hér á landi. Það er ekkert öðruvísi að lögum. Ég kann að vísu ekki finnsk lög mjög vendilega, en það er ekkert öðruvísi að lögum en hér þannig að hér er ekki verið að benda á nýja leið. Það er verið að benda á breytta menningu, breyttan brag, breyttan kúltúr. Við eigum sameinast um það, ég og hv. þingmaður, að standa fyrir því. En það sem hér er um að ræða eru tvær leiðir, annars vegar norska, sænska og danska leiðin og hins vegar sú finnsk-íslenska með kostum sínum og göllum.

Ég kem satt að segja ekki auga á þá lausung í stjórnarfari í Noregi, Danmörku og Svíþjóð sem þingmaðurinn ræðir um. Ég óska nánari skýringa á því hvernig sú lausung kemur fram í samskiptum þings og ríkisstjórnar í þeim samfélögum.