139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[03:14]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég var kannski ekki orðinn mjög órólegur út af þessu enda tel ég að við eigum töluvert eftir af þessari umræðu. Ég hafði ekki áhyggjur af því að umræðunni væri að ljúka akkúrat á þessari stundu. Ég vildi aðeins árétta það, fyrst ég fékk tækifæri til þess hér í ræðustól, að ég hefði beint ákveðnum spurningum til hv. þingmanns og eins hefðu komið fram ákveðin sjónarmið sem ég teldi að hann sem formaður nefndarinnar þyrfti að svara.

Ég er ánægður að heyra að hv. þingmaður hyggst taka til máls í þessari umræðu aftur og gera grein fyrir sjónarmiðum sínum, væntanlega gagnrökum gagnvart fjölmörgum röksemdum stjórnarandstæðinga sem hér hafa komið fram. Ég hlakka til að eiga orðastað við hv. þingmann á þeim forsendum og vonast til að hann fari efnislega yfir þá þætti sem athugasemdir hafa verið gerðar við. Er ég þá ekki bara að hugsa um þær ræður sem ég hef flutt í þessu máli heldur til dæmis líka prýðilega ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar fyrr í kvöld sem var afar málefnaleg, rökföst og skipti, eins og aðrir þingmenn hafa bent á, verulegu máli í þessari umræðu.